Byggðaráð Blönduósbæjar skipar í stjórn Byggðasamlags um brunavarnir

Á fundi byggðaráðs Blönduósbæjar sl. föstudag, þann 24. janúar, var skipun nýrra stjórnarmanna í stjórn Byggðasamlags um brunavarnir í Austur-Húnavatnssýslu eina mál á dagskrá. Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður byggðaráðs og oddviti L-lista, verður stjórnarmaður í staðinn fyrir Hjálmar Björn Guðmundsson og Anna Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjórnarfulltrúi og oddviti Ó-lista, verður stjórnarmaður í stað Magnúsar Vals Ómarssonar.

Á fundi sveitarstjórnar Húnavatnshrepps þann 22. janúar sl. var afgreiðslu frestað á kauptilboði og veitingu ábyrgðar vegna kaupa Brunavarna Austur-Húnavetninga á fasteign að Efstubraut 2 á Blönduósi. Jafnframt var það bókað að stjórn Brunavarna A-Hún. væri ekki rétt kjörin samkvæmt samþykktum og að nauðsynlegt væri að breyta þeim áður en lengra yrði haldið.

Í fundargerð byggðaráðs segir: „Þessar breytingar munu taka gildi strax eftir að þær hafa verið staðfestar á næsta fundi sveitarstjórnar Blönduósbæjar, sem er samkvæmt fundardagskrá 11. febrúar 2020. Byggðaráð Blönduósbæjar vill þakka Hjálmari Birni og Magnúsi Val, kærlega fyrir mikið og óeigingjarnt starf við það að efla og byggja upp Brunavarnir í Austur-Húnavatnssýslu á undanförnum árum.
Þá telur byggðaráð Blönduósbæjar ekki tilefni til þess að gera breytingar á samþykktum Byggðasamlags um Brunavarnir, en er reiðubúið í viðræður um hvernig megi efla starf brunavarna á svæðinu enn frekar.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir