Byggja upp öfluga miðstöð textíls á Blönduósi

Textílmiðstöð Íslands og Þekkingarsetur á Blönduósi tekur þátt í stóru Evrópuverkefni, CENTRINNO, undir áætluninni Horizon 2020, ásamt Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóla Íslands. Það er ætlað til þriggja og hálfs árs og hófst 1. september sl. Á heimasíðu Textílmiðstöðvarinnar segir að verkefnið snúist um að nota menningararfinn sem innblástur til nýsköpunar og blása lífi í fyrrum blómleg borgarhverfi og landshluta og er mikil áhersla lögð á að nýta möguleika stafrænnar tækni. 

Að verkefninu standa 26 stofnanir og fyrirtæki í níu löndum, þar á meðal WAAG and Metabolic Institute í Amsterdam, Volumes og Sony CLS in París, IAAC í Barcelona, Danish Design Center í Kauphannahöfn, FabLab Zagreb, Tallinn University of Technology og WeMake í Milan.

Í verkefninu er lögð áhersla á að nýta möguleika stafrænnar tæki og að efla kunnáttu í að nýta hana til framleiðslu. Stefnt er að frekari eflingu Textílmiðstöðvar Íslands sem miðstöð nýsköpunar og þekkingar í stafrænni textílframleiðslu sem byggð er á menningararfi og handverkskunnáttu íslenskra kvenna með sérstakri áherslu á ull og umhverfisvæna nýtingu hennar. Uppbygging aðstöðunnar á Blönduósi er unnin í samstarfi við textílfólk allsstaðar á Íslandi, samstarfsaðila í Evrópuverkefninu sem búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á uppbyggingu TextílLabs og lista- og fræðafólks í Kanada, Bandaríkjunum og víðar. 

Miklir möguleikar til að byggja upp
Þorgerður J. Einarsdóttir prófessor í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, mun ásamt Laufeyju Axelsdóttur nýdoktor í kynjafræði, kanna og kortleggja umgjörð, bakgrunn og sögu textíliðnaðar á Íslandi. Í því felst að skoða núverandi landslag starfsemi á sviði textíls, þróun í sögulegu samhengi, samfélagslegt umfang og mikilvægi, menningarlegar rætur og kynjasjónarmið. Skoðað er hvernig hefðir og menningararfleifð geta verið innblástur og hvati til endursköpunar á nýjum tímum og í nýju samhengi.

„Þetta verkefni fór af stað í september og við Katarina [Schneider, verkefnastjóri] erum á haus í þessu verkefni núna,“ segir Elsa Arnardóttir, forstöðumaður Textílmiðstöðvar Íslands á Blönduósi. Hún vonast til að verkefnið skili miklu  til Textílmiðstöðvarinnar sem verði sá staður á landsvísu þar sem að fólk kemur og vinnur að sinni list og sköpun en til stendur að opna textíl FabLab smiðju í miðstöðinni, sem er atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Norðurlandi vestra.

„Við stefnum á það að opna hana á Hönnunarmars á næsta ári en við fengum stóran styrk út Innviðasjóði til að kaupa tæki í vor sem er í raun mikil viðurkenning fyrir okkur. Tækjastyrkurinn og Evrópuverkefnið gerir okkur kleift og opnar á marga möguleika til að byggja upp en textílframleiðsla á Íslandi er afskaplega lítil og vanþróuð. Það er fyrst og fremst prjónið en engin vefnaðarframleiðsla í landinu og aðgengi að tækjum og tólum til að vinna hönnun  og nýsköpun er ekki til staðar,“ segir Elsa og bendir á þá staðreynd að að nemendur í fatahönnun, vöruhönnun eða textíl þurfi að fara erlendis til að kynnast fjórðu iðnbyltingunni og vinna með stafræn tæki. Nú sé hins vegar að rofa til á Íslandi og segir Elsa verkefnið allt kristallast í kringum það að byggja upp öfluga miðstöð textíls á Blönduósi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir