Samgönguminjasafnið í Stóragerði fær nýjan sýningargrip

Það voru félagar í áhugamannafélaginu Bjarmanum frá Neskaupstað sem tóku sig til og gáfu þennan fallega útfararbíl á Samgönguminjasafnið í Skagafirði um helgina. Félagið var stofnað á sínum tíma til að halda utanum bílaútgerð fyrir útfararbíl í kaupstaðnum.

Fyrsti bíllinn sem félagið flutti inn kom frá Danmörku og var gamall Bens M, sérútbúinn í hlutverkið, og dugði í nokkur ár. Svo kom þessi gullfallegi Buick árg. 1985 frá Ameríku og var í notkun þangað til í fyrra en þá var keyptur nýr M Benz Vito og tók við starfinu af þessum. Bíllinn var sóttur í blíðskaparveðri sunnudaginn 2. júlí og gekk ferðin vel, en sá gamli keyrði sig sjálfur í sína hinstu ferð á safnið og voru margir sem ráku upp stór augu þegar þessi glæsibifreið þaut um þjóðveginn frá Neskaupstað og í Stóragerði í Skagafirði, enda ekki á hverjum degi sem svona bíll sést á götunum.

Samgönguminjasafnið vill nota tækifærið og þakka þeim félögum í Bjarmanum kærlega fyrir þessa frábæru gjöf því þetta er jú eitt af því sem hefur vantað á safnið frá því það opnaði árið 2004.

Þá vill Samgönguminjasafnið minna á að næstu helgi, sunnudaginn 9. júlí, verður kaffihlaðborð frá 14-17 og því tilvalið að gera sér ferð á safnið þann dag, kíkja á nýja gripinn, og gæða sér á dýrindis veitingum í leiðinni. Þetta verður alveg eðal erfidrykkja!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir