Dómarar júní og júlímánaðar verðlaunaðir

Baldur Elí og Styrmir Snær með gjafabréfin. Mynd aðsend.
Baldur Elí og Styrmir Snær með gjafabréfin. Mynd aðsend.

Í júníbyrjun sagði Feykir frá því að Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Tindastóls hafi verðlaunað Svetislav Milosevic fyrir það að vera leikjahæsti dómari maímánaðar en nú er komið að því að tilkynna þá dómara sem voru leikjahæstir í júní og júlí. Það eru þeir Baldur Elí Ólason og Styrmir Snær Rúnarsson sem náðu þeim flotta árangri enda voru þeir einstaklega duglegir á línunni í sumar en einnig flautaði Styrmir leik hjá 4. flokki. Strákarnir eru báðir leikmenn Tindastóls í 3. flokki og fengu þeir gjafabréf á N1 í verðlaun fyrir dugnaðinn. Feykir lagði fyrir þá nokkrar spurningar. 

Baldur Elí Ólason:

Ertu búinn að æfa lengi? Síðan ég var svona 3-4 ára gamall.

Hvaða stöðu spilar þú? Ég spila vanalega framherja en hef síðustu leiki verið að spila á vinstri kant.

Hvernig hefur sumarið gengið í boltanum? Það hefur gengið vel. Í byrjun sumars þá byrjuðum við sterkt og fórum upp um lotu. Þegar að við fórum upp þá voru margir meiddir og gekk okkur erfiðlega en okkur hefur gengið vel eftir USA CUP.

Hvernig var USA ferðin? Ferðin var góð og enduðum við á að komast í undanúrslit. Ferðin hjálpaði okkur einnig að þétt hópinn og við spiluðum vel.

Styrmir Snær Rúnarsson:

Ertu búinn að æfa fótbolta lengi? Ég er búin að æfa fótbolta síðan ég var 3-4 ára.

Hvaða stöðu spilar þú á vellinum? Hafsent.

Hvernig hefur sumarið gengið í boltanum? Það hefur gengið vel.

Hvernig var keppnisferðin til USA? Mjög skemmtileg og okkur gekk vel á mótinu, komumst í undanúrslit sem var mjög gaman.

Fleiri fréttir