Drottning stóðrétta um helgina

Viðamikil dagskrá fer að venju fram í tengslum við Laufskálarétt, drottningu stóðrétta landsins, en réttað er næstkomandi laugardag, þann 27. september. Í bæklingi sem dreift hefur verið um Skagafjörð má sjá að vegleg dagskrá vegna réttarinnar stendur yfir alla helgina.

Á föstudagskvöldið verður boðið upp á stórsýningu og skagfirska gleði í Reiðhöllinni Svaðastöðum. Þar er um að ræða hressandi sýningu með flinkum knöpum og góðum hestum. Þrautakeppnin og skeiðkeppnin eru svo á sínum stað. Í skeiði eru vegleg verðlaun í boði. Höllin verður opnuð kl. 20:00 og búast má við að það verðir kátt í höllinni þetta kvöld.

Þeir sem vilja halda gleðinni áfram á föstudagskvöldið geta svo skellt sér á alvöru sveitaball með Upplyftingu á Hótel Mælifelli. Þar er aldurstakmark 18 ára og húsið opnar á miðnætti. Sama kvöld munu Sigvaldi, Alex Már og Jón Gestur halda uppi stemmingunni í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð, en þar verður dansgólf og barstemming á efri hæðinni.

Löngum fjölmennt í Laufskálarétt

Réttardagskrá í Laufskálarétt í Hjaltadal hefst með því að stóðið verður rekið úr Kolbeinsdal uppúr klukkan 11:30 á laugardag. Réttarstörf hefjast klukkan 13:00. Þátttakendum við stóðrekstur úr Kolbeinsdal er bent á að mæta við Laufskálarétt eða við hesthúsið Ástungu kl. 10:00, á laugardagsmorgunn. Að sögn Atla Más Traustasonar, sem nú gegnir embætti fjallskilastjóra í fyrsta sinn, koma um 400 fullorðin hross til réttar en hann hefur ekki tölu á fjölda folalda sem þeim fylgja. Hrossin hafa í sumar verið á afréttinum í Kolbeinsdal og dölunum þar inn af en á sunnudag var afrétturinn smalaður og rekið í hólf.

Að sögn Atla hefur gestafjöldi í Laufskálarétt verið svipaður í nokkur ár, um 3000 manns. Hann sagði að sér væri ekki kunnugt um hvenær og hvers vegna Laufskálarétt varð að þeim ferðamannaviðburði sem hún er orðin. „En þetta hefur verið svona síðan ég fór fyrst að byrja að þvælast þarna kringum 1980, þá var reyndar ekki svona margt fólk en samt þó nokkuð,“ segir Atli. Hann segir að um tíma hafi verið mikil hrossasala kringum Laufskálaréttina en hún hafi dregist saman eins og sala á hrossum almennt.

Stærsta réttarball norðan heiða

Laufskálaréttarballið verður haldið í Reiðhöllinni Svaðastöðum og hefst það kl. 23 á laugardagskvöldið. Hljómsveitin Von ætlar að stíga á svið ásamt landsliði söngvara: Matti Matt, Ingó veðurguð og Ernu Hrönn. Einnig kemur fram unga og efnilega hljómsveit kvöldsins, með Sigvalda Gunnars í broddi fylkingar. Forsala aðgöngumiða er hjá N1 á Sauðárkróki. Aldurstakmark er 16 ár og tekið er fram að engin bjórsala verður á staðnum.Annað ball verður á Hótel Varmahlíð á laugardagskvöldið, þar sem hljómsveitin Einnogsjötíu frá Akureyri heldur uppi fjörinu kl. 23-03.

 

Fleiri fréttir