„Ég elska alla liðsfélaga mína jafn mikið“/Erlendir leikmenn í boltanum

Jackie Altschuld í leik með Tindastóli. MYND: ÓAB
Jackie Altschuld í leik með Tindastóli. MYND: ÓAB

Í 27. tölublaði fengum við miðjumanninn Jackie Altschuld til þess að svara nokkrum spurningum í Erlendir leikmenn í boltanum. Jackie er 24 ára stúlka sem spilaði á síðustu leiktíð í Svíþjóð en vegna meiðsla þurfti hún að fara heim þar sem hún byrjaði að þjálfa en er komin sterk til baka.

Hvernig kom það til að þú ert að spila fótbolta á Íslandi og hvar spilaðir þúáður en þú komst hingað? Fyrir ári síðan þá var ég að spila í Svíþjóð en meiddist í byrjun leiktímabilsins þannig að ég fór aftur heim og þjálfaði. En svo fékk ég tækifæri til að koma og spila með Tindastól í sumar og meiðslin orðin góð þannig að ég var mjög spennt að fara að spila aftur.

Hvað hefur komið þér mest á óvart síðan þú komst til Íslands? Hversu mikill vindur er hérna og hvað allt er rosalega dýrt.

Hvernig finnst þér að vera hluti af liði Tindastóls? Frábært, mér líður rosalega vel hérna hjá Tindastól, maður finnur að allur bærinn styður liðið og það er svo mikil samheldni í samfélaginu.

Hver er uppáhalds liðsfélagi þinn? Ég elska alla liðsfélaga mína jafn mikið.

Hvaða væntingar hafðirðu til sumarsins á Íslandi? Bara spila fótbolta og vera partur af liðsheildinni og gera vel saman. Einnig langar mig að ná að ferðast um fallega landið ykkar.

Hvaða leikmaður hefur verið þér fyrirmynd? Sterkasti innblástur minn og mín helsta fyrirmynd, er systir mín. Hún greindist með krabbamein í skjaldkirtli á hátindi ferilsins, en lét það ekki stoppa sig, hélt áfram að spila með liðinu sínu eftir fjölmargar aðgerðir og bakslög. Hætti aldrei og sýndi mikla elju og styrk.

Hvað gerir þú annað hér á Sauðárkróki en að spila fótbolta? Týpískur dagur hjá mér lítur svona út; Vakna 07:15 og fæ mér hafragraut í morgunmat. Svo fer ég í vinnuna upp á íþróttavelli, slá grasið, laga netin í mörkunum og allskonar viðhald. Eftir hádegi vinn ég svo við að þrífa herbergin í Puffin Palace. Eftir vinnu reyni ég að leggja mig eða fara í lyftingasalinn. Við æfum síðan í svona einn og hálfan tíma og eftir æfingu þá er bara komið að kvöldmat. Svo nær maður að eiga smá tíma með bestu herbergisfélögunum, Mur og Lauren. Svo tala ég venjulega við fjölskylduna mína áður en ég fer að sofa, þar sem að á sama tíma þá eru þau að byrja sinn dag.

Hvað hefur verið erfiðast við að dvelja á Íslandi? Það hefur verið erfiðast að venjast veðrinu, það er ekki svona mikill vindur og svona kalt í Kalíforníu.

Stutta spilið:

Uppáhalds Íslenska snarlið þitt? Hrískökurnar með súkkulaðinu ofan á.

Lag sumarsins? The Climb -  Miley Cyrus

Skrítnasti maturinn sem þú hefur bragðað á Íslandi? Opal

Uppáhalds fótboltaliðið þitt? LA Galaxy

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir