Eignaðist barn í sjúkrabílnum

Mynd: Nýbakaðir foreldrar með börnin sín þrjú. Ólöf heldur á dömunni sem lá svo mikið á að komast í heiminn, Snorri heldur á  Emblu Nótt og á milli þeirra er elsta systirin í hópnum, Emilía Rós. Mynd: PF.
Mynd: Nýbakaðir foreldrar með börnin sín þrjú. Ólöf heldur á dömunni sem lá svo mikið á að komast í heiminn, Snorri heldur á Emblu Nótt og á milli þeirra er elsta systirin í hópnum, Emilía Rós. Mynd: PF.

Klukkan 6:54 þann 4. desember sl. fá sjúkraflutningamenn á Sauðárkróki boð um F1 útkall sem er fyrsti forgangur í þeirra kerfi. Fæðing! Þeir Yngvi Yngvason og Sigurbjörn Björnsson eru mættir á sjúkrabílnum stuttu síðar og læknir svo í kjölfarið. Afráðið er að fara upp á HSN á Sauðárkróki í betra umhverfi þar sem legvatnið var ekki farið og tekin yrði ákvörðun þar hvort farið yrði með sjúkrabíl eða flugvél á fæðingadeildina. „Ekki vorum við komnir langt þegar vatnið fór og Sibbi kallar: „Það er að koma!“ sem það og gerði í Hverfisbrekkunni,“ segir Yngvi aðspurður um atburðarásina þennan viðburðaríka morgun.

Hann segir að þegar komið var í bílskúrinn á HSN hafi allir verið í hálfgerðu sjokki yfir því hve fljótt þetta gekk fyrir sig. „Við fórum að annast barnið sem fór stuttu seinna að gráta, og þvílíkur léttir! Í þann mund mæta ljósmóðir og læknir og var yndisleg stúlka fædd 21 mínútu eftir að útkallið barst,“ segir Yngvi hrærður yfir atburðunum. Þarna hafði þeim Ólöfu Ösp Sverrisdóttur og Snorra Geir Snorrasyni fá Sauðárkróki fæðst yndisleg dóttir.

Í síðasta Feyki ársins sem kemur út í dag er viðtal við Ólöfu sem segir að þarna hafi alls ekki verið um draumastöðu að ræða. Fannst henni jafnvel erfiðast að hafa ekki fagmanneskju með sér í gegnum þetta ferli til að leiðbeina henni en allt fór vel á endanum.

„Okkur mæðgum heilsast vel. Daman er vær og góð og braggast vel. Hún á tvær eldri systur sem sjá ekki sólina fyrir henni og dekra við hana og eru duglegar að hjálpa til.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir