Eitt smit á Norðurlandi vestra og níu í sóttkví

Kórónuveiran hefur enn og aftur löðrungað okkur Íslendinga en talað er um að þriðja bylgjan af COVID-19 hafi skollið á okkur undir lok síðustu viku. Langflest eru smitin á höfuðborgarsvæðinu og virðast einkum tengjast skemmtistöðum og háskólasamfélögunum. 242 einstaklingar eru nú með smit og í einangrun en ríflega 2100 eru í sóttkví.

Samkvæmt síðustu tölum sem finna má á Covid.is þá er einn einstaklingur í einangrun á Norðurlandi vestra en níu í sóttkví.

75 smit greindust sl. föstudag á landinu en 38 smit greindust daginn eftir og 30 í dag og vonast Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir til þess að tekist hafi að hægja á útbreiðslunni. Á laugardag var ákveðið að loka skemmtistöðm og krám á höfuðborgarsvæðinu til að sporna við útbreiðslu COVID-19 og gilda þær reglur út sunnudaginn 27. september.

Þá er mælt með að fólk noti grímur á fjölmennari stöðum eins og á listviðburðum, á tón­leik­um og í leik­húsi ann­ars veg­ar og hins veg­ar í fram­halds- og há­skól­um. Á heimasíðu FNV er áréttað skólahald verði óbreytt og að grímunotkun er eingöngu skylda í skólum á höfuðborgarsvæðinu. „Við viljum engu að síðu árétta að nemendur virði fjarlægðarmörk, almennar sóttvarnarreglur og persónulegar sóttvarnir eins og handþvott og sprittun,“ segir á síðu FNV en sjá má fréttina hér.

Eða svo vitnað sé í Hr. Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands: „Verum varkár og tökum tillit til annarra.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir