Eitt stórt klúður eða mörg smá?

Send voru til samþykktar sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar í síðustu viku, drög að viðauka númer 1 við fjárhagsáætlun 2019 sem gerir ráð fyrir því að fjárfesting eignasjóðs hækki um 97,5 mkr. vegna framkvæmda við Aðalgötu 21. Í frétt á vef Feykis er farið yfir stöðu mála og rætt við oddvita Sjálfstæðisflokks í sveitarstjórn. Þar þykir mér vera farið heldur frjálslega með staðreyndir málsins, og gefið í skyn að einungis sé um 15% umfram kostnað á verkefninu að ræða. Að því tilefni ætla ég að fara yfir nokkrar staðreyndir málsins.

Kostnaðaráætlun vegna framkvæmda við Aðalgötu 21 hljóðar upp á rúmar 189 milljónir króna. Það er sú upphæð sem miðað var við þegar ákvarðanir voru teknar. Einnig voru óháðar úttektir á áhrif sveitarfélagsins vegna samnings þess við Sýndarveruleika ehf. unnar með sömu kostnaðaráætlun sem forsendur, sem meirihluti sveitarstjórnar hefur síðan stuðst við í sínum málflutningi.

Samþykktur var viðauki við fjárhagsáætlun 2018 uppá 120 milljónir króna, til þess að ljúka innan- og utanhúss viðhaldi á fasteignum við aðalgötu 21, eins og segir í greinargerð með viðaukanum. Þessar 120 milljónir bættust við þær 80 milljónir sem upphaflega voru á fjárhagsáætlun 2018. Fjármagnið þá alls orðið 200 milljónir, sem þótti hæfilegt til þess að ljúka verkinu, með þá rúmar 10 milljónir fyrir auka- og/eða viðbótarverk.

Nú liggur svo fyrir sveitarstjórn viðauki uppá 97,5 milljónir króna til þess að, enn á ný, ljúka framkvæmdum, en þá hefur verið áætlað í verkið alls 297,5 milljónum. Fulltrúi sjálfstæðisflokksins segir þetta vera að mestu leyti ný verk, sem snúa meðal annars að aðgengismálum og brunavörnum. Hafi kostnaðaráætlun ekki gert ráð fyrir viðeigandi brunavörnum og að aðgengismál væru í lagi, þá er það í besta falli ámælisvert, þar sem þessi sama kostnaðaráætlun var notuð verkefninu öllu til stuðnings og brautargengis. 

Það liggur því alveg ljóst fyrir, að allt umfram þær 200 milljónir sem áætlanir gerðu ráð fyrir, er umfram kostnaður við verkefnið, annars hefði það verið tekið fram í þeim óháðu úttektum sem gerðar voru fyrir sveitarfélagið áður en hafist var handa, og áður en samningur við Sýndarveruleika ehf., sem verður þar til húsa, var undirritaður.

Ég tel það því ekki rétta nálgun að ætla nú á loka metrunum að kljúfa verkefnið niður og segja þetta meira og minna ný verk sem bætast við. Ég held að öllum hafi verið full ljóst alveg frá upphafi að brunavarnir, aðgengismál, bílastæði, starfsmannaaðstaða, anddyri og fleira hafi alltaf legið fyrir að þyrfti að vera til staðar í húsnæði sem þessu, og því ætti að gera ráð fyrir því í kostnaðaráætlun.

Sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjarðar áætlaði 200 milljónir til þess að ljúka innan- og utanhúss viðhaldi á fasteignunum við Aðalgötu 21, sem nú eru orðnar tæpar 300 milljónir. Það eru ekki 15%, alveg sama hvort um sé að ræða eitt stórt klúður, eða mörg ný og smærri.

Ólafur Bjarni Haraldsson
Fulltrúi Byggðalista í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir