Ný verk hækka kostnað við Aðalgötu 21

Anddyri norðan Gránu er ætlað að tryggja gott aðgengi hreyfihamlaðra. Mynd: PF.
Anddyri norðan Gránu er ætlað að tryggja gott aðgengi hreyfihamlaðra. Mynd: PF.

Á fundi byggðarráðs Skagafjarðar í síðustu viku voru lögð fram drög að viðauka númer 1 við fjárhagsáætlun 2019 sem gerir ráð fyrir því að fjárfesting eignasjóðs hækki um 97,5 mkr. vegna framkvæmda við Aðalgötu 21. Fulltrúi Byggðalistans telur um mikla framúrkeyrslu að ræða en búast má við um 30 m.kr. umframkostnaði.

Á fundinum lagði Sveinn Finster Úlfarsson, fulltrúi Byggðalistans,fram bókun þar sem hann gerir athugasemdir við gerð viðaukans: „ … annarsvegar þar sem um er að ræða mikla framúrkeyrslu á verkefni sem Byggðalistinn styður ekki, og hinsvegar þar sem viðbótar kostnaði á að mæta með aukinni lántöku og lækkun á handbæru fé. Eðlilegt þætti að halda þeim línum sem settar voru við fjárhagsáætlanagerð til að sýna ábyrga fjármálastefnu í verki.“

Feykir hafði samband við Gísla Sigurðsson, oddvita Sjálfstæðismanna í sveitarstjórn, sem sagði kostnað við upphaflega áætlaðar endurbætur við Aðalgötu 21 munu fara um 30 m.kr. umfram þá áætlun eða sem nemur 15% hækkun. Skýrist það helst af auknum kostnaði við frágang og styrkingar lofta í hluta húsnæðisins, svo og vegna hærri kostnaðar við loftræstingu, raflagnir, endurbætur á neðri hæð Gránu, hönnun og eftirlit. Segir hann tæpan þriðjung fjárhæðarinnar megi rekja til hækkunar á launaliðum og aðföngum sem orðið hafa frá því að kostnaðaráætlun var unnin.

„Önnur verk sem samþykkt voru í viðaukanum eru ný verk sem ekki var gert ráð fyrir í upphaflegri kostnaðaráætlun. Eru stærstu liðir þar anddyri norðan Gránu til þess m.a. að tryggja gott aðgengi hreyfihamlaðra, rif og afrétting gólfa á efri hæð Gránu sem ekki þótti rétt að bíða með og fara í síðar vegna mikils rasks sem því myndi fylgja, auk starfsmannaaðstöðu og sprinklerkerfis.“ Gísli segir jafnframt að ekki hafi verið ráðist í viðaukann fyrr sökum þess að mat á öllum kostnaði þess sem áætlað er að heildarverkið kosti lá ekki fyrr fyrir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir