Ekki teljandi skemmdir í asahláku gærdagsins
Það gerði mikla hláku á landinu í gær með hlýjum vindstrengjum og úrhellisrigningu. Vindstyrkurinn fór upp í 29m/s á Bergstöðum og hviðurnar náðu að feykja hinum ýmsu hlutum um koll. Á Sauðárkróki rann mikið leysingavatn niður klaufirnar á Nöfum og stóðu starfsmenn sveitarfélagsins og verktakar vaktina og náðu að stýra flaumnum með því að grafa rásir og setja möl þar sem þurfti.
Að sögn Ingvars Gýgjars Sigurðssonar, hjá þjónustumiðstöð sveitarfélagsins, urðu ekki skemmdir á mannvirkjum þar vel tókst til að beina vatnsflaumnum úr Kristjánsklaufina út fyrir Bjarna Har og niður hjá Trésmiðjunni Ýr og moka frá niðurföllum og halda þeim hreinum við Kirkjuklaufina og torgið. Tekið var einnig á það ráð að dæla vatni af torginu og niður á Freyjugötu þegar niðurföll höfðu ekki undan en það var m.a. gert til að fyrirbyggja það að vatn flæddi inn á gistiheimilið Miklagarð.
Þrátt fyrir veðurhaminn sem gekk yfir um helgina fékk Björgunarsveitin Skagfirðingasveit aðeins eitt útkall vegna skjólveggs á föstudaginn en það var minniháttar og fljótafgreitt. „Nokkrir félagar fóru svo í æfingaferð fram í Skiptabakka á föstudaginn og fram á laugardag en engin útköll í gær en við reiknuðum allt eins með því að fá útköll miðað við veðurspá,“ sagði viðmælandi Feykis hjá Skagfirðingasveit.
Norbert Ferencson var á ferðinni í gær og tók nokkrar myndir sem lýsa ástandinu ágætlega og Þorgerður Þórhallsdóttir birti á Facebooksíðu sinni myndband sem sýnir að nokkuð mikið vatn rann til sjávar í gær.
Svakaleg hláka
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.