Eldur að Fögrubrekku
Laugardaginn 20. nóvember s.l. voru slökkviliðin í Bæjarhreppi og á Hvammstanga kölluð út vegna bruna í reykkofa að bænum Fögrubrekku í Hrútafirði. Þó svo að stutt sé í slökkviliðið á Borðeyri þá búa hlutastarfandi slökkvilið við það að enginn viðveruskilda er af hálfu slökkviliðsmanna, og að þessu sinni voru menn dreifðir víða um svæðið og fór svo að slökkviliðin mættu á svæðið á svipuðum tíma.
Á leiðinni á vettvang fengu slökkviliðsmenn upplýsingar um að vélaskemma sem var áföst reykkofanum væri einnig að brenna og voru húsin alelda þegar að var komið enda nægur eldsmatur í skemmunni. Á heimasíðu Brunavarna Húnaþings vestra segir að litlu hafi verið hægt að bjarga og því lítið að gera annað en slökkva eldinn. Engin hætta var á að eldur kæmist í næstu hús þar sem veður var mjög hagstætt stafalogn og frost. Vel gekk að slökkva eldinn en húsin eru þó talin gjörónýt og að sjálfsögðu mikið áfall fyrir ábúanda sem og fárhagslegt og tilfinnarlegt tjón mikið. Í samtali við ábúanda sem er alinn upp að Fögrubekku kom í ljós að þegar hann var um 11 ára gamall brann risið ofan af íbúðarhúsinu og rifjuðust þær óþægilegu minningar ungs drengs upp við þessar aðstæður.