Eldur í Húnaþingi
Eldur í Húnaþingi er bæjarhátíð í Húnaþingi vestra sem haldin verður dagana 23.-27. júlí. Hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2003 og hefst á morgun með flottri opnunarhátíð.
Miðvikudagurinn 23. júlí 2014
FM Eldur - FM 106,5 Útvarpsstöðin FM Eldur verður starfræktur yfir hátíðina á tíðninni FM 106,5. Útvarpsstjóri í ár er Birkir Snær Gunnlaugsson. Þeir sem hafa áhuga á að vera með útvarpsþátt, flytja tónlist í útvarpinu eða taka þátt með einhverjum hætti, er bent á að hafa samband við Birki á utvarphvammstangi1@gmail.com eða í síma 847-9444.
18:00 Nytjamarkaðurinn - Brekkugatan á Hvammstanga (gamla húsnæði sláturhúss Ferskra afurða) Nytjamarkaður "gæranna" er staðsettur í gamla húsnæði sláturhúss Ferskra afurða á Hvammstanga og er gengið inn Brekkugötumegin. Þar kennir ýmissa grasa, en "gærurnar" sanka að sér ýmsum munum til sölu og verja þær ágóðanum til verðugra málefna í héraði ár hvert.
19:00 Opnunarhátíð - Opnunarhátíðin í ár fer fram á svæðinu sunnan við Landsbankann á Hvammstanga, líkt og árið 2013. Þar verður eldurinn tendraður í eldsmerkinu góða, Unglistarlagið hans Júlíusar A. Róbertssonar verður flutt og ýmislegt sem í ljós kemur síðar. Kjötsúpa verður í boði fyrir gesti og gangandi, í boði Reykjatanga og Gróðurhússins á Reykjum. Ef vel viðrar þá munu flugeldar lýsa upp himininn.
19:00 Heiðurssýning Agnars Levý (Hús VSP við Brekkugötu 2). Agnar Levy var einn af bestu hlaupurum Íslendinga á árunum 1960-1969. Hann keppti bæði hérlendis sem erlendis. Sýndir verða munir í einkaeigu, ljósmyndir, blaðagreinar, umfjallanir o.fl. Sýningin fer fram í húsi Sigurðar Pálmasonar á jarðhæð. Agnar sjálfur mun vera af og til á staðnum til að hitta og spjalla við fólk.
Opnunartímar sýningar eru eftirfarandi:
miðvikudagur (23. júlí) kl. 19:00-22:00
fimmtudagur til sunnudags (24.-27. júlí) kl. 13:00-16:00.
Aðstandendur sýningar eru afkomendur Agnars. Áhugaverð sýning sem allir eru hvattir til að koma og upplifa.
22:00 Bílabíó (Hvammstanga) Að lokinni hefðbundinni setningu Elds í Húnaþingi verður boðið upp á bílabíó á Hvammstanga. Þar verður sýnd einhver góð mynd sem hæfir breiðum aldurshópi og verður hljóðinu útvarpað beint í bílinn. Það eina sem þarf að gera er að leggja bílnum, halla sér aftur og njóta. Svo verða bíóveitingar til sölu á meðan á myndasýningu stendur. Við mælum með að fjölmenna í bílana svo að sem flestir komist fyrir. Staðsetning verður nánar auglýst síðar.
Dagskrá og frekari upplýsingar um hátíðina er að finna á heimasíðu Elds í Húnaþingi.