Eldur í Húnaþingi hefst í dag
Eldur í Húnaþingi er hátíð í Húnaþingi vestra sem hóf göngu sína árið 2003 og verður því eldurinn tendraður nú í 19. sinn. Hátíðin hefur tekið mörgum breytingum frá því hún var fyrst haldin. Fyrst um sinn var hátíðin haldin sem unglistahátíð. Þá var hún bæði skipulögð og framkvæmd af ungu fólki í Húnaþingi vestra. Með tímanum fékk hátíðin á sig fjölskyldu- og bæjarhátíðarblæ og hefur dagskráin verið breytileg með ári hverju en hún ræðst oftar en ekki af áhugasviði stjórnenda. Hátíðin hefur vissa fasta viðburði sem hafa einkennt hátíðina frá upphafi en auk þess er bryddað upp á ýmsum nýjungum eða rykið dustað af gömlum!
Dagskráin hefur oftar en ekki innihaldið fjölmarga tónlistarviðburði, námskeið, dansleiki, viðburði með íþróttalegu ívafi, svo eitthvað sé nefnt. Mikil áhersla hefur verið lögð á að fólk á öllum aldri geti fundið eitthvað við sitt hæfi og að sem flestir viðburðir séu gestum að kostnaðarlausu. Í ár stendur hátíðin yfir frá mánudegi til sunnudags.
Frá mánudegi til föstudags verður í boði stuttmyndanámskeið sem sett hefur verið saman fyrir börn og unglinga á aldrinum 10 - 16 ára. Þar fá þátttakendur að kynna sér allar hliðar stuttmyndagerðar frá hugmyndavinnu og handritsgerð til upptöku og eftirvinnslu efnis. Þórður Pálsson og Álfrún Laufeyjardóttir sjá um námskeiðið. Hann er menntaður kvikmyndaleikstjóri með MA frá National Film & Television School á Englandi og gerði nýverið Netflix seríuna Brot/Valhalla Murders sem voru sýnd á RÚV. Hún hefur starfað innan flest allra deilda kvikmyndagerðar og hefur m.a. leikið í Lof mér að falla, Mannasiðir og Vikings: Valhalla, sem verður sýnd á Netflix.
Á hátíðinni kennir ýmissa grasa m.a. verður boðið upp á flóamarkað, Jiu Jitzu, pubquiz, Fifa-mót, blakmót, zumba-dans fyrir krakka, afródans og Djémbe trommusmiðju, uppákomu í Gallerý Bardúsu, uppistand með Sögu Garðars, ball fyrir gömlu dansana á Hótel Laugarbakka og kokteilanámskeið svo fátt eitt sé nefnt.
Einn af vinsælli viðburðum hátíðarinnar er Melló Músíka en það er tónlistarveisla hátíðarinnar þar sem heimamenn, brottfluttir, aðfluttir og gestir hátíðarinnar troða upp og flytja fjölbreytt lög. Mikil fjölbreytni er með tónlistarfólks á svæðinu svo það finna eflaust flestir eitthvað við sitt hæfi á Melló.
Á föstudeginum verður bjórjóga í boði en sá viðburður er styrktur af Bruggsmiðjunni Kalda sem mun bjóða upp á veitingar fyrir þátttakendur.
Það var svo góð stemning á hátíðinni 2020 þegar umsjónaraðilar brydduðu upp á þeirri nýjung að hafa brekkusöng í Kirkjuhvamminum, að það verður endurtekið í ár. Þeir Stúlli og Danni frá Sigló sjá um tónlistina, svo það þarf ekki að gera annað en að mæta og njóta. Gott er að hafa það í hug að klæða sig eftir veðri, sólgleraugu og bermúdabuxur ef það er bongó og lopinn og teppi ef það er aðeins svalara en það. Brekkusöngurinn er í boði Sjóvá.
Stjórnin ætlar svo að sjá um að hrista upp í mannskapnum eftir brekkusönginn. En þau verða með standandi tónleika frá 22:00. Standandi tónleikar þýðir ekki að fólk eigi bara að standa, það má alveg dansa eins og enginn sé morgundagurinn. Þessum viðburði lýkur klukkan 1:00 og við hvetjum þess vegna fólk til að mæta snemma en húsið opnar klukkan 21:30. Eldsbarinn verður opinn og því ekki leyfilegt að koma með eigið áfengi.
Á laugardeginum verður veisla allan daginn. Það byrjar á fjölskylduratleik á Byggðasafninu á Reykjum kl. 11:00. Á sama tíma hefst einnig World market í Félagsheimilinu á Hvammstanga en hann stendur yfir til 15:00. Fjölskyldudagskráin byrjar svo kl. 13:00 við Félagsheimilið, þar verða ýmsir leikir í boði fyrir börnin, pylsur grillaðar, vöfflur steiktar, afródanssýning, pannavöllur og zumba-sýning.
Á bryggjunni kl. 11:30 fer fram aflraunakeppni Elds í Húnaþingi, Eldraunin. Þar verður keppt um titlana sterkasti maður og sterkasta kona hátíðarinnar. Keppt verður í dekkjaveltu, steinataki, framhald með lóðarskífu og helluburði.
Stuðlabandið lokar svo hátíðinni, skemmtanalega séð, með því að skella í hefðbundið sveitaball fyrir 16 ára og eldri. Enginn bar og gestir taka með sér eigin drykki, ef ske kynni að þeir yrðu þyrstir.
Þó að ballið sé hinn eiginlegi lokaviðburður verða einnig viðburðir á sunnudeginum. Þá verður selatalningin mikla en nánari upplýsingar um þann viðburð má nálgast inni á selasetur.is. Þá mun Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, vera með leiðsögn um Hvammstanga þar sem hann mun segja frá gömlum húsum.
Gangan hefst á krossgötum (við norðurhorn Kaupfélagsins) kl. 14:00.
Veðurspáin virðist einnig ætla að verða hátíðinni hliðholl og er spáð brakandi blíðu og sunnanátt alla vikuna. Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má finna inni á heimasíðu hátíðarinnar, eldurihun.is.
Við hlökkum til að taka á móti gestum hátíðarinnar í 19. sinn á þessa fjölskylduhátíð. Verið öll hjartanlega velkomin!
/fréttatilkynning