Eldur mun loga í Húnaþingi

Bæjarhátíðin Eldur í Húnaþingi verður haldin á Hvammstanga eftir hálfan mánuð en  hátíðin hefur verið haldin ár hvert síðan árið 2003. Öll vinna við undirbúning hátíðarinnar er unnin í sjálfboðavinnu af íbúum í héraðinu.

Á hverju ári er fengið nýtt fólk til þess að skipuleggja hátíðina og þess vegna fá nýjar hugmyndir að líta dagsins ljós. Það eru samt alltaf ákveðnir atburðir sem hafa skipað sér fastan sess.

Opnunaratriði hátíðarinnar fer fram á miðvikudagskvöldinu. Það fer fram í Félagsheimili Hvammstanga og á hafnarbakkanum.

Einn helsti atburður hátíðarinnar er tónlistarflutningur í Borgarvirki á föstudagskvöldinu. Borgarvirki er ein af okkar fallegustu náttúruperlum í Húnaþingi Vestra og hafa tónlistarmenn eins og Ragga Gísla, Steini (úr Hjálmum) og Elín Ey, KK, og Hörður Torfa komið þar fram undir berum himni.  Í ár mun Regína Ósk og undirleikarar sjá um tónlistarfluttning. Það verður einnig stompað.
Eftir Borgarvirki verða svo tónleikar í félagsheimilinu Hvammstanga með hljómsveitinni Dikta.

Melló Músíka er einnig fastur liður þar sem tónlistarmenn úr sýslunni spila lög eftir sig og aðra. Markmiðið er að eiga saman ljúfa kvöldstund og hlusta á góða tónlist. Eftir flutning heimamanna tekur hljómsveitin BeeBee & the Blue Birds við og spila fram á nótt.

Fjölskyldudagurinn er haldinn hátíðlega á laugardeginum og þar geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Hoppikastalir, leiktæki og sápubolti verða í boði, veitingar verða á staðnum og munu fyrirtæki á svæðinu keppa sín á milli og leysa spennandi þrautir.

Að kvöldi laugardags er svo haldin 2 böll í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Fyrra ballið er barnaball og er í boði Sparisjóðsins, seinna ballið er svo fyrir 16 ára og eldri. Hingað til hafa hljómsveitir á borð við Bermúda, Í svörtum fötum, Sniglabandið, Skítamórall og Buff leikið fyrir dansi. Ákveðið var að endurtaka leikinn og mun hljómsveitin Í svörtum fötum sjá um að halda uppi gleði á ballinu.

Ofaná þessa fasta liði, þá er margt fleira í boði á meðan á hátíðinni stendur eins og ýmis námskeið, listasýningar, útvarp, tónlistarviðburðir, skemmtiatriði og annað sprell. Netfang hátíðarinnar er eldurihun@gmail.com

Heimasíða hátíðarinnar er http://eldur.hunathing.is/index.php

Facebook síða hátíðarinnar er http://www.facebook.com/pages/Hvammstangi-Iceland/Eldur-i-Hunabingi-unglistahatid/85760869048

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir