Elstu ljóðaprentanir Jónasar Hallgrímssonar, Benedikts Gröndal, Eggerts Ólafssonar og Kristjáns fjallaskálds á uppboði

Hluti uppboðsgripanna. Mynd: Egill Bjarnason.
Hluti uppboðsgripanna. Mynd: Egill Bjarnason.

Frá bókauppboði í Hveragerði. Mynd: Egill BjarnasonBókauppboð verður haldið í Safnaðarheimili Grensáskirkju við Háaleitisbraut 66 í Reykjavík laugardaginn 22. apríl og hefst klukkan 14. Uppboðshaldari er Bjarni Harðarson bóksali en regluvörður er Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari og aðstoðarmaður uppboðshaldara er Valdimar Tómasson ljóðskáld. 

Meðal einstæðra kjörgripa sem verða boðnir upp má nefna Waysenhúss-Biblíuna frá 1747, fyrstu prentanir Hómerskviða á íslensku, fágæta kínverska passíusálmaútgáfu og elstu ljóðaprentanir Jónasar Hallgrímssonar, Benedikts Gröndal, Eggerts Ólafssonar og Kristjáns fjallaskálds. Af ritum um Íslandssögu má nefna frumprent Deo, Regi, Patriæ frá 1768, Eptirmæli 18. aldar, fallegt skinnbundið eintak af bókinni Menn og menntir eftir Pál Eggert, Sögu Hraunshverfis og Austantórur. Mikið úrval 18. og 19. aldar ferðabóka af ferðum um Ísland og einstakt safn fyrri alda prentunar Íslendingasagna og annarra miðaldabókmennta þjóðarinnar. Þá verða í lok uppboðs boðin upp íslensk myndasöguhefti s.s. Ástríkur, Tarzan og þriggja binda myndabók með Hringadróttinssögu. 

Uppboðið er bæði vettvangur þeirra sem vilja fjárfesta kjörgripum á góðu verði og ekki síður tækifæri til handleika og skoða merka og sjaldséða prentgripi. Sem fyrr segir hefst uppboðið klukkan 14:00 en húsið verður opnað klukkan 13:00 þar sem áhugasömum gefst kostur á að skoða gripina. Uppboðsskilmálar og listi yfir uppboðsbækur er birtur á vefsíðunni Netbokabud.is og á fésbókarsíðu uppboðshaldara

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir./Fréttatilkynning

 

 

Fleiri fréttir