Enginn lausafjárvandi
Sveitarstjórn Skagastrandar kom saman í gær og ræddi m.a. um fjármál og framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins. Þar kom fram að lausafjárvandi væri ekki þannig að stöðva þyrfti neinar framkvæmdir á Skagaströnd.
-Það eru svo sem engin stór verk sem eftir eru að klára. Við munum ljúka við þær framkvæmdir sem hafa verið í gangi hjá okkur. Núna er verið að ljúka við gatnaframkvæmdir og annað smálegt, segir Magnús B Jónsson sveitarstjóri. Aðspurður um atvinnuástandið í bænum segir Magnús að atvinnuástandið sé frekar veikt þótt lítið væri um skráð atvinnuleysi, en ákveðin hættuljós blikka. –En það þýðir ekkert að vera með neinn barlóm, heldur taka á þeim vanda sem hugsanlega steðjar að í því umhverfi sem við búum við í dag, segir Magnús að lokum.