Snjólaug María íþróttamaður USAH

Ný stjórn USAH. Guðmann Jónasson, Baldur Magnússon, Guðrún Sigurjónsdóttir og Rúnar Pétursson. Á myndina vantar Auði Ingimundardóttur. Mynd af Huni.is
Ný stjórn USAH. Guðmann Jónasson, Baldur Magnússon, Guðrún Sigurjónsdóttir og Rúnar Pétursson. Á myndina vantar Auði Ingimundardóttur. Mynd af Huni.is

Ársþing Ungmannasambands Austur-Húnvetninga var haldið að Húnavöllum sl. sunnudag, 7. apríl, og var það 102. þing sambandsins. Vel var mætt til fundar en allir þingfulltrúar sem rétt áttu til setu á þinginu, 35 talsins, voru mættir, og gengu þingstörf vel fyrir sig.

Nokkrar tillögur lágu fyrir þinginu. Samþykkt var að stjórn sambandsins skipaði þriggja manna nefnd til að endurskoða Stefnumótun USAH og koma með tillögur að breytingum. Þá beindi þingið því til USAH að skoða vel möguleika á umsókn til ÍSÍ um viðurkenningu sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ.

Stjórn USAH veitti Frjálsíþróttadeild Hvatar Hvatningarverðlaun sambandsins. Kjöri Íþróttamanns ársins hjá USAH var lýst en alls voru fimm aðilar tilnefndir, þau Bergrún Ingólfsdóttir frá Hestamannafélaginu Neista, Jón B. Kristjánsson frá Skotfélaginu Markviss, Sigríður Þorleifsdóttir frá Ungmennafélagi Bólstaðarhlíðarhrepps, Snjólaug María Jónsdóttir frá Skotfélaginu Markviss og Steinunn Hulda Magnúsdóttir frá Ungmennafélaginu Hvöt.

Íþróttamaður ársins hjá USAH er Snjólaug María Jónsdóttir, Skotfélaginu Markviss, en meðal þess sem Snjólaug afrekaði á árinu 2018 var fyrsta sæti á Landsmóti á Blönduósi á nýju Íslandsmeti, fyrsta sæti á Landsmóti sem haldið var á Akranesi og fyrsta sæti á Íslandsmóti í Reykjavík. Þá varð Snjólaug Norðurlandsmeistari, Íslandsmeistari í flokkakeppni, Íslandsmeistari kvenna annað árið í röð og Bikarmeistari kvenna annað árið í röð.

Mótadagskrá sumarsins var samþykkt og eru mót sumarsins eftirtalin: Héraðsmót USAH í sundi verður haldið á Blönduósi þann 22. maí, Barnamót USAH í frjálsum íþróttum verður haldið í Húnaveri þann 17. júlí og Héraðsmót USAH í frjálsum íþróttum verður haldið á Blönduósi dagana 10. – 11. júlí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir