Jafntefli hjá Stólunum í fyrsta leik sínum í Lengjubikarnum

Arnar og Óskar Smári skoruðu mörk Tindastóls og voru nokkuð ánægðir með sig að leik loknum. MYND AF FB
Arnar og Óskar Smári skoruðu mörk Tindastóls og voru nokkuð ánægðir með sig að leik loknum. MYND AF FB

Tindastólsmenn, sem munu leika í 3. deildinni í sumar,  hafa loks náð að safna í lið og eru komnir á ferðina í Lengjubikarnum. Þar mættu strákarnir liði Sindra frá Höfn í Hornafirði og var spilað í Skessunni í Hafnarfirði. Lokatölur urðu 2-2 eftir að Hornfirðingar jöfnuðu undir lok venjulegs leiktíma.

Lið Tindastóls náði forystunni í uppbótartíma fyrri hálfleiks með marki Arnars Ólafssonar. Hermann Þór Ragnarsson jafnaði metin á 50. mínútu en Óskar Smári Haraldsson, sem var kominn í Tindastólstreyjuna að nýju, kom sínum mönnum yfir á ný aðeins fimm mínútum síðar. Einar Karl Árnason jafnaði fyrir lið Sindra á 88. mínútu og þar við sat og liðin skiptu því með sér stigunum.

Tindastóll tekur þátt í 2. riðli B-deildar Lengjubikarsins en auk Stólanna og Sindra eru KV, Haukar, Vængir Júpíters og Þróttur Vogum í riðlinum. Næsti leikur er áætlaður nú á laugardag og ef allt gengur upp verður hann leikinn á Sauðárkróksvelli (gervi-grasinu) kl. 15:00. Það eru piltarnir úr Vogunum sem ætla að voga sér norður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir