Drangeyjarbryggjan ónýt

Ekkert er nánast eftir af göngupöllunum sem láu frá bryggjunni. AÐSENDAR MYNDIR
Ekkert er nánast eftir af göngupöllunum sem láu frá bryggjunni. AÐSENDAR MYNDIR

Í vonda veðrinu sem gekk yfir landið í síðustu viku, um miðjan júlí, vildi ekki betur til en svo að flotbryggjan við Drangey losnaði og er nú gjörónýt. Er því ófært út í eyju eins og staðan er í dag og ljóst að mikið tjón hefur orðið fyrir ferðaþjónustuaðilann í eyjunni, Drangeyjarferðir.

Flotbryggjan marar hálf í kafi.Í samtali við Feyki segir Viggó Jónsson hjá Drangeyjarferðum, að akkerisfestingar hafi gefið sig og útlit sé fyrir að smíða þurfi bryggjuna upp á nýtt. „Eins og staðan er núna er ekki hægt að fara út í eyju nema með mikilli fyrirhöfn. Það er ekki hægt að lenda þar sem engin er bryggjan og við þyrftum að ferja alla í land með léttabát. Því höfum við verið að fara í hringferðir um eyjuna í staðinn og njóta hennar af sjó,“ segir Viggó. Ekki bólar þó á svartsýni hjá þessum athafnamanni því eins og Skagfirðingar vita þá eru aldrei vandamál hjá Viggó, bara verkefni.

Viggó segir að þegar ljóst var að minna yrði um að vera í sumar, miðað við fyrri ár, og því hafi þeir feðgar, Helgi Rafn Viggósson, ekki verið að búast við neinu. Þeir ákváðu að gera út á strandveiðar þegar ekki væru ferðir í Drangey þó þær hafi verið látnar ganga fyrir og því ekki hægt að segja að aflinn hafi verið mikill. Traffíkin hafi þó verið um þriðjungur af venjulegu ári. Það sem einkennir ferðirnar hingað til eru hvalirnir sem hafa verið við Sauðárkrók í sumar og stundum hafi munað litlu að árekstur hafi orðið í höfninni, á milli hvals og báts. „Það er bara frábært að fólk hafi fengið hvalaskoðun á fyrstu fimm mínútum ferðarinnar,“ segir Viggó og vill minna á að hægt sé að nýta sér ferðagjöfina hjá Drangeyjarferðum.

Heimasíða Drangeyjarferða    Drangeyjarferðir á Facebook    Drangeyjarferðir á Instagram       

/SHV

Ofan af uppgönguleiðinni sést vel hversu miklar skemmdirnar eru.

 Bryggjustæðið á góðum degi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir