Gæti þurft að loka sundlauginni á Hvammstanga

Frá Hvammstanga. MYND: ÓAB
Frá Hvammstanga. MYND: ÓAB

Húnahornið segir af því að ef kuldatíðin sem verið hefur í Húnavatnssýslum haldi áfram gæti komið til þess að sundlauginni á Hvammstanga verði lokað tímabundið. Á fundi byggðarráðs Húnaþings vestra í fyrradag fór Benedikt Rafnsson veitustjóri yfir stöðuna á vatnsveitunni í sveitarfélaginu. Hann greindi m.a. frá því að notkun á heitu vatni hafi aukist mikið í kuldakastinu, sem hefur haft áhrif á notendur á Hvammstanga. Til að mæta aukinni heitavatnsnotkun hafi hitastigið í sundlauginni verið lækkað.

Og ef tíðin verður áfram eins gæti þurft að loka sundlauginni tímabundið, eins og áður sagði. Gert er þó ráð fyrir að heitir pottar verði áfram opnir. Í máli veitustjórans kom einnig fram að vandamál hafi komið upp í hitaveitu á Reykjatanga vegna kuldatíðarinnar en þau hafi verið leyst.

Veðurguðirnir virðast ekki hafa mikla samúð með sundlaugargestum því spár gera ráð fyrir að örlítið hlýni nú í lok vikunnar en svo tekur kuldatíðin kipp á ný út alla næstu viku.

Fleiri fréttir