Er áhugi á stofnun rafíþróttadeildar?

Er barnið þitt að loka sig af inni í herbergi til að spila tölvuleiki í fleiri klukkustundir á dag? Hafa hefðbundnar íþróttir ekki vakið áhuga hjá þínu barni? Þú vilt væntanlega allt það besta fyrir þitt barn. Ég er eins og er að vinna í kynningu sem ég mun kynna fyrir stjórn Tindastóls í næsta mánuði. Kynningin snýr að stofnun rafíþróttadeildar þar sem krakkar fá tækifæri til að iðka áhugamál sitt sem íþrótt og fá að læra að spila tölvuleiki á heilbrigðan hátt með öðrum krökkum og eignast þannig fleiri vini.

Krakkar í dag spila mjög mikið af tölvuleikjum, þeir eiga það til að loka sig af inni í tölvunni í fleiri klukkustundir á dag. Margir krakkar leita meira í tölvuna þegar þeim líður illa, þeir eiga erfitt með að tala við annað fólk, eignast vini og vilja fá að vera ein í sínum heimi. En svo eru líka margir krakkar sem hafa einfaldlega of mikinn áhuga á tölvuleikjum og spila þá alltof lengi á dag, í verstu tilfellunum hafa krakkar þróað með sér tölvufíkn.

Með stofnun rafíþróttadeildar gætu krakkar, sama hvort þeir eru í körfubolta, fótbolta eða æfa engar íþróttir, mætt á æfingu hjá deildinni og æft saman, kynnst betur og lært að spila tölvuleiki á heilbrigðan hátt með þjálfurum. T.d væri æft í 1-2 klukkustundir á dag og 60-70% tímans færi í að æfa sig í tölvuleikjum og restin færi í líkamlega hreyfingu eða fræðslu. Verkefnið yrði reynt að vinna í samstarfi við frístundamiðstöð.

Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu hafa nú þegar stofnað eða eru að stofna rafíþróttadeildir. KR, FH, Fylkir og Ármann hafa nú þegar stofnað deildir og eru komin á fulla ferð með þetta verkefni.

Ef áhugi er fyrir því þá er hægt að fá mann frá Rafíþróttaskólanum til að halda fyrirlestur um heilbrigða spilun rafíþrótta.

Ég væri til í að vita hvað fólkið í firðinum hefði að segja um þetta verkefni.

Ingi Sigþór Gunnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir