Ert þú gæðablóð? - Blóðbíllinn á Sauðárkróki í næstu viku

Blóðbíllinn verður á Sauðárkróki eftir helgi. Mynd: FE.
Blóðbíllinn verður á Sauðárkróki eftir helgi. Mynd: FE.

Blóðbankabíllinn verður á Sauðárkróki við Skagfirðingabúð þriðjudaginn 1. október frá kl. 11-17 og daginn eftir frá kl. 9-11:30. Allir blóðgjafar eru hvattir til að mæta og gefa blóð sem og þeir sem vilja gerast blóðgjafar. Þorbjörg Edda Björnsdóttir, forstöðumaður öflunar blóðgjafa, segir það hafa gríðarlega þýðingu fyrir Blóðbankann að fara út á land í blóðsöfnun. 

„Blóðbankabíllinn er okkur afar mikilvægur en fastir viðkomustaðir hans skila drjúgu blóði til starfsemi Blóðbankans auk þess sem bíllinn auðveldar okkur að finna og virkja nýja blóðgjafa. Hann auðveldar einnig virkum blóðgjöfum sem eiga erfitt með að komast í Blóðbankann að gefa blóð reglulega,“ segir Þorbjörg.  

Blóðbankabíllinn er á ferðinni tvisvar til þrisvar sinnum í viku og heimsækir þá stærri þéttbýliskjarna í grennd við höfuðborgarsvæðið, menntaskóla, háskóla og ýmis fyrirtæki.  Einnig eru farnar lengri ferðir tvisvar á ári t.d. á Snæfellsnes og um Norðurland. Að sögn Þorbjargar bættust fjórir nýir áfangastaðir við árið 2016; Vestmannaeyjar, Ísafjörður, Egilsstaðir og Reyðarfjörður. „Þangað er flogið bæði með mannafla og búnað til heilblóðssöfnunar og hafa viðtökurnar verið mjög góðar. Á öllum þessum söfnunarstöðum úti á landi eigum við því marga góða blóðgjafa sem koma og gefa blóð þegar við mætum. Hver blóðgjöf er gríðarlega mikilvæg og hver og einn einasti blóðgjafi skiptir máli.“

Hvernig hafa Skagfirðingar staðið sig í blóðgjöfinni?
„Skagfirðingar hafa staðið sig ótrúlega vel að mæta í blóðgjöf og sem betur fer fáum við líka alltaf einhverja nýja blóðgjafa í hvert skipti. Á hverju ári þurfum við að fá 2000 nýja blóðgjafa til viðbótar við þann blóðgjafahóp sem fyrir er til þess að viðhalda hópnum. Blóðsöfnunarferðin á Sauðárkrók í vor gekk mjög vel og við viljum endilega halda áfram á þessari braut.“

Þorbjörg segir það verulega einfalt að gerast blóðgjafi. Viðkomandi mætir í Blóðbankabílinn og skráir sig inn hjá ritara, fyllir út heilsufarsblað, les bækling og fer í viðtal hjá hjúkrunarfræðingi þar sem er m.a. mældur blóðþrýstingur.  Að því búnu leggst viðkomandi á bekk en í fyrstu heimsókn eru eingöngu teknar blóðprufur til að kanna blóðflokk og blóð- og járnhag blóðgjafans.  Að tveimur til þremur vikum liðnum ætti sá áhugasami að fá skilaboð í símann sinn og væntanlega þá orðinn löglegur blóðgjafi.  

 

En skyldu einhverjir vera til sem ekki eru heppilegir blóðgjafar?
„Allir sem eru hraustir og eru 18-65 ára gamlir mega koma til okkar og kanna hvort þeir geti gerst blóðgjafar.  Hins vegar eru ýmsar reglur sem hafa þarf í huga t.d. að mæta ekki í blóðgjöf kvefaður eða veikur og sum lyf geta komið í veg fyrir að þú getir gerst blóðgjafi,“ segir Þorbjörg og bendir á að hægt er að kynna sér reglurnar nánar á https://blodgjafi.is/

„Það tekur stuttan tíma að gefa blóð, einungis 30 mínútur fara í allt ferlið í heild sinni.  Undirbúningur fyrir blóðgjöf skiptir líka miklu máli. Ef þú kemur vel úthvíldur, búinn að borða 1-2 klst. fyrir blóðgjöf og hefur drukkið vel af vökva þá ertu vel í stakk búinn til að gefa af þér og ættir að finna lítið sem ekkert fyrir því að gefa blóð. Við hvetjum því sem flesta til að koma til okkar og gefa blóðgjöf.  Blóðgjöf er raunveruleg lífgjöf og getur ein blóðgjöf bjargað allt að tveimur til þremur lífum.  Allir skipta máli!   Komdu!“

Hægt er að fylgja Blóðbankanum á fésbókinni, sjá HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir