Eru þingmenn landsbyggðarinnar tortryggilegir
Einar K. Guðfinnsson Alþingmaður lagði fram skýrslubeiðni skömmu fyrir þingfundahlé Alþingis nú um jólin þar sem þess er freistað að draga fram upplýsingar um skiptingu ríkisútgjalda á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar.
-Tilefni þessarar beiðni minnar er sú að mikil umræða hefur farið fram um þessi mál upp á síðkastið og margir hafa reynt að gera það tortryggilegt að landsbyggðarfólk og ýmsir þingmenn landsbyggðarinnar slái skjaldborg um útgjöld af fjárlögum til viðfangsefna á landsbyggðinni, segir Einar og telur það nauðsynlegt að skoða þessa hluti í heildarsamhengi, en mjög hefur á það skort að hans mati.
-Umræðan hefur verið mjög slagorðakennd og ekki byggst á mikilli þekkningu, hvað þá velvilja til landsbyggðarinnar. Það verður fróðlegt að sjá hvað út úr þessari skýrslubeiðni kemur, segir Einar.
Þetta þingmál er lagt fram á grundvelli 46 greinar þingskaparlaga, sem heimilar þingmönnum að kalla eftir skýrslum frá ráðherrum um tiltekin mál. Skilyrði þess að slík beiðni sé samþykkt er að að minnsta kosti 9 þingmenn standi á bak við hana. Auk Einars standa 12 þingmenn úr Sjálfstæðisflokki, Famsóknarflokki og Samfylkingu að þessari beiðni.
Farið er fram á það að í skýrslunni komi meðal annars fram upplýsingar um rekstrarútgjöld, fjárfestingar og stofnkostnað, skiptingu stöðugilda hjá A-, B- og C-hluta ríkissjóðs, svo og hjá opinberum hlutafélögum í eigu ríkisins, og hlutfall þeirra af íbúafjölda á einstökum landsvæðum, stuðning ríkisins við íbúðareigendur og leigjendur, svo sem í formi vaxtabóta og húsaleigubóta og styrki úr rannsókna- og þróunarsjóðum.