FAB LAB formlega opnað á morgun

Laugardaginn 4. Desember 2010 kl. 15:00 verður FAB LAB stofa á Sauðárkróki formlega opnuð. Þessi hátækni smíðastofa er staðsett í nýju verknámshúsi Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, en húsið verður vígt sama dag og hefst sú athöfn kl. 14:00. Verknámshúsið og FAB LAB stofan verða opin til kl 16:30 og verður starfsemi og hugmyndafræði FAB LAB stofa kynnt fyrir gestum og gangandi.

FABLAB er smíðastofa með einföldum stýribúnaði sem gerir fólki á öllum aldri og með lágmarks tækniþekkingu kleyft að hanna og smíða eigin frumgerðir. Hugmyndafræði FABLAB er að færa hátæknilausnir í iðnaði og hönnun til einstaklinga og smáfyrirtækja þannig að þau geti á einfaldan hátt komið hugmyndum sínum um iðnframleiðslu í framkvæmd. Í raun má segja að þeir sem hafa aðgang að slíkri smíðastofu séu eingöngu takmarkaðir af eigin hugmyndaflugi þannig að þetta er gott verkfæri til að efla nýsköpun og þróun.

FAB LAB stofan verður nýtt til kennslu í grunnskólum og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, en einnig er stofan opin fyrir alla þá sem vilja nýta sér stafræna tækni við framleiðslu eða listsköpun. FAB LAB stofa á Sauðárkróki er ein af tæplega 50 FAB LAB stofum sem eru starfræktar um víða veröld, en stofurnar vinna saman með frítt flæði hugmynda og þekkingar og er því mjög auðvelt að ná í þekkingu og tæknilausnir ef hugmyndaflugið þrýtur á einum stað

FAB LAB á Sauðárkróki er samstarfsverkefni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Hátækniseturs Íslands ses, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Skagafjarðarhraðlestarinnar og Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Fleiri fréttir