Fall er fararheill
Gamalt máltæki segir að fall sé fararheill, flest okkar þekkja þetta máltæki en tökum það misalvarlega. Tvær áhafnir í Kaffi Króks-rallý sem haldið var af Bílaklúbbi Skagafjarðar eru líklegast mjög sannfærðar um sannleiksgildi þessa máltækis.
Keppendurnir Guðni Freyr Ómarsson og Einar Hermannsson voru mættir til undirbúnings á fimmtudagsmorguninn rétt eins og þeir Baldur Haraldsson og Aðalsteinn Símonarson. Héldu báðar áhafnir upp á Mælifellsdal en keppendur hafa þá venju í undirbúningi keppni að aka keppnisleiðir fyrir keppni í þeim tilgangi að útbúa leiðarnótur. Leiðarnótur eru lýsing aðstoðarökumanns á því hvernig aka skuli leiðina, hægri, vinstir, hratt, hægt, upp, krappar beygjur og svo framvegis. Aðstoðarökumaðurinn les nóturnar síðan í akstri á þann hátt að ökumaður veit hvað framundan er og hvernig skuli aka. Miklu skiptir að aðstoðarökumaðurinn geti lesið á þeim hraða sem ekið er því ökumaður þarf í blindni að geta treyst lýsingunni, vont er að lesa „hægri kröpp beygja“ ef framundan er vinstri löng beygja.
Baldur og Aðalsteinn lögðu aðeins fyrr af stað og voru því að aka Mælifellsdalinn til baka en þeir Guðni Freyr Ómarsson og Einar Hermannsson voru rétt að hefja undirbúninginn á uppeftir leið. Báðar áhafnir voru einbeittar að útbúa nóturnar og á blindhæð einni mættust bílarnir. Þrátt fyrir að hraði hafi verið í meðallagi varð árekstri ekki afstýrt. Ökumenn slösuðust þó ekki alvarlega, fengu mar og smávægilegar tognanir en skoðunarbílarnir voru sóttir af dráttarbíl og aka ekki meira.
Þrátt fyrir þetta mættu allir fjórir galvaskir til leiks á föstudaginn, harð ákveðnir í að láta engan bilbug á sér finna.
13 áhafnir hófu keppni á föstudagskvöldið, þar af voru 5 fyrrum íslandsmeistarar. Eknar voru skemmtilegar en krefjandi leiðir en mikil rigning og bleyta gerðu allar aðstæður mjög erfiðar. Eina á þurftu keppendur að aka yfir, var hún einmitt mjög vatnsmikil vegna mikilla rigninga og féll þar ein áhöfn úr leik en tvær féllu úr leik á Þverárfjalli. Í lokin voru það einungis 10 áhafnir sem sem skiluðu sér heilar í endamark á laugardag.
TímOn-félagarnir Baldur Haraldsson og Aðalsteinn Símonarson sigruðu keppnina með yfirburðum en þeir náðu besta tíma á 7 leiðum af 9. Í lokin var forskot þeirra orðið 1 mín og 47 sek. á þá Sigurð Braga Guðmundsson og Ísak Guðjónsson, en þeir sigruðu keppnina 2013. Í þriðja sætu urðu svo Pumba-félagar Henning Ólafsson og Árni Gunnlaugsson.
Þeir Guðni Freyr Ómarsson og Einar Hermannsson stóðu uppi sem sigurvegarar í „non turbo“-flokki og sjöunda sæti í heildarkeppninni , bræðurnir í Rally bro´s Sigurður Arnar Pálsson og Brynjar S. Guðmundsson í öðru sæti í flokknum.
Þeir Baldur og Aðalsteinn leiða nú Íslandsmeistarmótið með 28 stig hvor, hafa þeir 16 stiga forskot á næstu menn núna þegar tveimur umferðum er ólokið.
Hægt er að fylgjst með áhöfnunum undir liðanöfnum þeirra á facebook, einnig er hægt að fylgjast með keppnum á heimasíðum klúbbanna, bks.is, aifs.is og asisport.is
/Fréttatilkynning
TímOn-félagar og sigurvegarar keppninnar, Aðalsteinn og Baldur. Mynd: María Dagmar.