Feikna fjör á Hofsós heim um helgina

Frá varðeldi á Hofsós heim 2018. Mynd:FE
Frá varðeldi á Hofsós heim 2018. Mynd:FE

Hofsósingar og nærsveitungar halda bæjarhátíð sína nú um helgina undir yfirskriftinni Hofsós heim. Hátíðin er arftaki Jónsmessuhátíðar á Hofsósi sem haldin var árlega um margra ára skeið, síðast árið 2017. Dagskráin er þéttskipuð skemmtilegum viðburðum og ættu allar kynslóðir að geta fundið þar eitthvað við sitt hæfi.

Í kvöld, fimmtudag, eru íbúar hvattir til að skreyta hús sín og garða og koma að verki loknu saman í Félagsheimilinu Höfðaborg og grilla saman. Hin eiginlega dagskrá hefst svo á morgun. Þá gefst þeim sem eru í góðu formi kostur á að ganga á Ennishnjúk í fylgd Rúnars Páls á Grindum en hinir sem ekki eru eins léttir á fæti geta rölt um staðinn með þeim Sólborgu Unu Pálsdóttur og Guðnýju Zoëga sem ætla að segja frá upphafi byggðar á Hofsósi. Að göngu lokinni verður litið við í Konungsverslunarhúsinu þar sem Þorsteinn Þorsteinsson (Steini Pálu) segir sögur af fólkinu sem setti svip á mannlífið í þorpinu á síðustu öld.

Að vanda sér Félag eldri borgara um að matreiða kjötsúpu ofan í gesti og kvöldvaka og dansleikur með Landabandinu verða að súpu lokinni. Ljósmyndasýning verður í Grunnskólanum og myndlistarsýning í Sólvík og þar verður trúbadorinn Sæþór Már með gítarinn á föstudagskvöld.

Af dagskrárliðum laugardagsins má nefna að handverkshópurinn Fléttan verður með prjónakaffi í Túngötu 2, útijóga verður á kirkjutúninu og börnin geta farið í fjársjóðsleit. Líonsmenn grilla ofan í gesti við Höfðaborg en þar innan dyra verður markaður, söngvakeppni barnanna og fjölskyldudiskó. Bændamarkaður verður í Pakkhúsinu og Loppumarkaður við gamla leikskólann. Einnig má nefna listasmiðju, andlitsmálun, fjölskylduratleik, skotboltamót og veltibíllinn mætir á svæðið. Þá verður sjósund með Sillu Páls, ljósmyndasýning Finns og förðunarnámskeið hjá Lilju Dóru. Geirmundur Valtýs ætlar að stjórna söng við varðeld í fjörunni um kvöldið og svo heldur hann áfram stuðinu í Sólvík. Í Höfðaborg verður hins vegar ekta sveitaball með Stjórninni.

Á sunnudag er svo tilvalið að fara í kaffihlaðborð á Samgöngusafninu í Stóragerði og koma við á opnu býli á Hlíðarenda.

Dagskrá Hofsós heim má nálgast á https://www.facebook.com/hofsosheim og einnig í nýjasta tölublaði Sjónhornsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir