Fékk söguna ekki til að ganga upp í landslaginu
Sigurður Hansen sagnaþulur, bóndi og þúsundþjalasmiður í Kringlumýri í Skagafirði vill ekki kalla sig listamann en hefur engu síður sett upp það sem kalla mætti eitt stærsta útilistaverk á Íslandi. Um er að ræða sviðssetningu á Haugsnesbardaga, á eyrunum við Djúpadalsá og er öllum rúmlega 1300 þátttakendunum í bardaganum stillt upp í formi steina. Feykir heimsótti þennan hugmyndaríka mann og er hann í opnuviðtali Feykis þessa vikuna.
Þegar Sigurður hófst handa við sviðssetningu árið 2009 hafði hann hugsað um það í nokkur ár, eða frá því fyrrnefndum minkabússkap var hætt, hvort hann gæti ekki nýtt sér sína þekkingu á sögunni og gert eitthvað tengt hinni mögnuðu miðaldasögu.
„Þetta er náttúrulega ekki skemmtileg saga allt saman, en engu siður stórkostleg. Hún er kannski sérstaklega mögnuð fyrir það að hún er sögð af samtímamanni, þannig að maður getur vænst þess að þarna sé farið nokkuð rétt með. Þetta er kannski besta skýring á sögunni sem við höfum í rauninni, frá því á miðöldum, það er þetta Sturlungatímabil á meðan Sturla Þórðarson skrifaði. Annars hefur þetta tímabil verið svolítið í þoku en þarna er samtímamaður sem skrifar söguna. Þarna eru mikil umbrotatímar í okkar þjóðfélagi og það má ekki gleyma því hvað það er mikilvægt að þekkja okkar sögu,“ segir Sigurður og bætir því við að það sé hugsjón hans að gera þessa sögu aðgengilega og áþreifanlega.
Sigurður hefur einnig byggt upp gestamóttöku í Kakalaskála, þar sem hann áður rak stórt minkabú. Hann hefur fleiri járn í eldinum og er hvergi nærri sestur í helgan stein. Viðtalið í heild sinni má nálgast í Feyki vikunnar.
Sögudagur á Sturlungaslóð og Ásbirningablót í Kakalaskála
Frá Ásbirningablóti í Kakalaskála í Kringlumýri. Ljósm/BÞ
Sigurður á í góðu samstarfi við félagsskapinn Á Sturlungaslóð og Hótel Varmahlíð. Saman standa þessir aðilar að Ásbirningablóti á morgun, laugardaginn 16. ágúst, og er það í sjötta sinn sem blótið er haldið.
Dagskráin hefst á sögudegi, þar sem farið verður að Selvík á Skaga. Þar mun Helgi Hannesson leiðsögumaður og framhaldsskólakennari segja frá Flóabardaga. Félagar frá Grettistaki í Húnaþingi vestra verða á staðnum og sjá um að börnin hafi eitthvað við að vera. Um kvöldið verður blótið í Kakalaskála og hefst klukkan 20.
Erindi flytja Einar Georg Einarsson kennari og sagnaþulur frá Laugarbakka og Þór Hjaltalín minjavörður Norðurlands vestra. Bára Grímsdóttir og Chris Foster verða með tónlistaratriði en sjálfur ætlar Sigurður á stýra veislunni. Bornar verða fram veitingar í miðaldastíl, sem eru í umsjá hótelsins í Varmahlíð.