Kristján Bjarni nýr skólastjóri Árskóla

Kristján Bjarni. MYND SKAGAFJÖRÐUR
Kristján Bjarni. MYND SKAGAFJÖRÐUR

Kristján Bjarni Halldórsson hefur verið ráðinn í starf skólastjóra Árskóla á Sauðárkróki og mun hefja störf við upphaf næsta skólaárs í haust. Þetta kemur fram á vef Skagafjarðar. 

Kristján Bjarni er með MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu og hefur lokið námi til kennsluréttinda, hvort tveggja frá Háskóla Íslands. Auk þess er hann með C.sc í byggingaverkfræði og stundaði einnig doktorsnám í mati á skólastarfi meðfram starfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Kristján Bjarni hefur starfað hjá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra undanfarin 24 ár í ýmsum stöðum, fyrst sem kennari og deildarstjóri í raungreinum og stærðfræði en sem áfangastjóri frá árinu 2016. Hann hefur auk þess í tvígang gegnt stöðu aðstoðarskólameistara í afleysingum.

Árskóli er heildstæður grunnskóli þar sem um 400 nemendur stunda nám. Í Árskóla vinnur sérhæft starfsfólk saman að því að mæta ólíkum einstaklingum með krefjandi verkefnum við hæfi hvers og eins. Unnið er í anda hugmyndafræðinnar um skóla án aðgreiningar og lögð er áhersla á að koma til móts við námsþarfir allra nemenda í skólahverfinu.

Skólastarfið í Árskóla er varðað mörgum hefðum sem setja sterkan svip á skólabraginn. Á hverju ári fer fram danshátíð þar sem nemendur 10. bekkjar dansa í sólarhring með aðstoð allra nemenda skólans. Allir bekkir æfa leikrit og setja á svið, alls rúmlega 30 sýningar í félagsheimilinu Bifröst. Auk þess setja 10. bekkingar upp barnaleikrit í fullri lengd og selja inn á sýningar sem hluti af fjáröflun fyrir skólaferðalag til Dannmerkur. Síðan má nefna friðargöngu, þorrablót, íþróttadag og gleðigöngu. Foreldrar og bæjarbúar taka virkan þátt í þessum hefðum. Árskóli var tilnefndur til íslensku menntaverðlaunanna árið 2024 fyrir framúrskarandi skólastarf.

Kristján Bjarni mun taka við stöðunni af Óskari G. Björnssyni sem stýrt hefur skólanum með miklum glæsibrag undanfarna áratugi.

Fleiri fréttir