Feykir tilnefndur til Hvatningaverðlauna

Dagur atvinnulífsins á Norðurlandi vestra verður haldinn á morgun fimmtudaginn 17. nóvember nk. á Kaffi Krók á Sauðárkróki og hefst dagskrá kl. 10:00. Þetta er í þriðja sinn sem SSNV stendur fyrir árlegum Degi atvinnulífsins á Norðurlandi vestra en að þessu sinni verður hann haldinn í Alþjóðlegri athafnaviku sem stendur yfir frá 14.  – 20. nóvember nk.

 

Degi atvinnulífsins er ætlað að skapa vettvang til kynningar á starfsemi sem fram fer á svæðinu og umræðu um atvinnumál. Dagskránni lýkur með afhendingu Hvatningarverðlauna SSNV sem eru í senn viðurkenning fyrir góðan árangur og  hvatning til áframhaldandi starfsemi viðkomandi fyrirtækis eða einstaklings. Markmið verðlaunanna er að hvetja til nýsköpunar og vekja athygli á því sem vel er gert á Norðurlandi vestra.

Úr hópi margra verðugra voru fimm fyrirtæki tilnefnd til Hvatningarverðlaunanna árið 2011 en þau eru Feykir, héraðsfréttablað og vefmiðill sem átti 30 ára útgáfuafmæli fyrr á þessu ári, Verslunin Hlíðarkaup sem fagnar 20 ára afmæli á þessu ári. Hótel Varmahlíð sem er gamalgróið fyrirtæki þar sem greiðasala hefur verið stunduð í 75 ár, Kaupfélag Skagfirðinga eitt elsta kaupfélag á landinu, stofnað 1889 og Videosport sem þau Kristín Magnúsdóttir og Sigurpáll Aðalsteinsson reka

Gert er ráð fyrir því að ofangreind fyrirtæki kynni starfsemi sína á Degi atvinnulífsins 17. nóvember nk. og þá verður jafnframt boðið upp á áhugaverð innlegg frá öðrum gestum.

Hefð er fyrir því að verðlaunagripurinn sem veittur er vegna Hvatningaverðlauna SSNV atvinnuþróunar sé unninn af listamanni á svæðinu.  Að þessu sinni er verðlaunagripurinn unninn af Guðbrandi Ægi Ásbjörnssyni, listamanni á Sauðárkróki.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu SSNV

Fleiri fréttir