Fisk Seafood hlýtur jafnlaunavottorð

FISK Seafood á Sauðárkróki hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt ÍST 85:2012 staðli til næstu þriggja ára en á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að BSI á Íslandi hafi gefið út staðfestingu þess efnis á dögunum. Í kjölfarið sendi Jafnréttisstofa fyrirtækinu leyfi til að nota merki vottunarinnar.

„Vottunin nær yfir allt starfsfólk FISK og staðfestir að fyrirtækið vinnur kerfisbundið gegn kynbundnum launamun og stuðlar að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. FISK Seafood er því komið í hóp yfir 150 annarra fyrirtækja og stofnana á Íslandi sem hlotið hafa vottunina,“ segir á fisk.is.

Jafnlaunastaðallinn er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi og geta fyrirtæki og stofnanir á grundvelli hans fengið jafnlaunavottun. Hann nýtist öllum fyrirtækjum og stofnunum óháð stærð, starfsemi, hlutverki og kynjahlutfalli, samkvæmt því sem kemur fram á vef Jafnréttisstofu. Staðallinn á að tryggja fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns.

Fleiri fréttir