Fjárhagsáætlun Húnaþings vestra fyrir 2015 samþykkt

Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2015, ásamt 3ja ára áætlun fyrir árin 2016-2018 fyrir sveitarsjóð Húnaþings vestra og undirfyrirtæki. „Góð samvinna hefur verið á milli meirihluta og minnihluta sveitarstjórnar um áherslur við fjárhagsáætlunargerð og þetta árið er engin breyting þar á. Fjárhagsáætlanir einstakra deilda eru unnar í góðri samvinnu við forstöðumenn stofnana. Áfram er áhersla á hagvæmni í rekstri en ákveðið hefur verið að ráðast í umtalsverðar framkvæmdir vegna hitaveitu í dreifbýli og munu framkvæmdir hefjast á árinu 2015,“ segir í fundargerð sveitarstjórnar frá 27. nóvember sl.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2015 er þær að gert er ráð fyrir 6 millj.kr. tekjuafgangi. Áætlað er að fráveita, hitaveita og vatnsveita skili rekstarafgangi en að önnur B-hluta fyrirtæki séu rekin með halla. Tekjur samstæðunnar eru áætlaðar 1.254 millj. kr. en gjöld 1.218 millj. kr. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 30,3 millj. kr.

Handbært fé frá rekstri til greiðslu afborgana lána og til fjárfestinga er kr. 157,2 millj. kr. Hlutfall veltufjár frá rekstri er áætlað 6,1% Áætlað er að afborgun langtímalána nemi kr. 56,5 millj. kr. á árinu 2015.

Gert er ráð fyrir að hitaveita taki 50 milljóna lán. Handbært fé í árslok 2015 er áætlað kr. 61,8 millj. sem er lækkun um 15,8 millj. kr. frá ársbyrjun. Gert er ráð fyrir hækkun á liðnum eigið fé um 6 millj. kr. frá afkomuspá ársins 2014. Gert er ráð fyrir hækkun skulda og skuldbindinga um 14 milljónir. kr. frá afkomuspá ársins 2014. Eignfærð fjárfesting á árinu 2015 er alls kr. 168,7 milljónir.

Í þriggja ára áætlun, árin 2016, 2017 og 2018, er gert ráð fyrir eignfærðum fjárfestingum að upphæð kr. 235,2 milljónir, aðallega vegna hitaveitu í dreifbýli og viðbyggingar við íþróttahús. Gert er ráð fyrir lántöku að upphæð kr. 40 milljónir en jafnframt verði á þessum árum greidd niður lán að upphæð 180,6 milljónir á því tímabili sem áætlunin nær til.

Í samræmi við ákvæði fjármálareglna, sem gilda um rekstur sveitarfélaga, um skuldaviðmið og jafnvægi í rekstri er rekstrarniðurstaða fjárhagsáætlunar ársins 2015 fyrir samstæðu A- og B-hluta sveitarsjóðs jákvæð. Skuldahlutfallið er 65,9% en má skv. ákvæðum fjármálareglna mest vera 150%.

„Fagnar því að upp er að renna tími mikilla framkvæmda“

Í fundargerð segir að fjármagnskostnaður sveitarfélagsins hafi lækkað umtalsvert á liðnum árum þar sem ekki hafa verið tekin ný lán frá árinu 2011 en lán verið greidd niður á sama tíma. Árið 2015 er gert ráð fyrir að tekin verði 50 milljóna króna lán vegna hitaveituframkvæmda en á sama tíma verði engu að síður eldri lán greidd niður um 56 milljónir króna.

Á liðnum árum hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra almennt hækkað gjaldskrár í samræmi við verðlagsbreytingar. Þó skal nefnt að gjaldskrá vistunargjalds leikskóla hefur ekki verið hækkað frá árinu 2011. Systkinaafsláttur í leikskóla og í vistun eftir skóla hefur verið hækkaður í 50% fyrir árið 2015. Í fjárhagsáætlun ársins 2015 mun álagning fasteignagjalda vera óbreytt frá fyrra ári.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra leggur mikið uppúr íþrótta- og tómstundastarfi barna. Það er meðal annars gert með myndarlegum styrkjum til íþróttafélaganna sem og frístundastyrk fyrir hvert barn á ári. Þá eru greiddir akstursstyrkir til foreldra í dreifbýli sem þurfa að keyra sérstaklega til að koma / sækja börn á æfingar. Gjöld í Tónlistarskóla Húnaþings vestra eru með þeim lægstu á landinu. Þessar aðgerðir hafa leitt til þess að íþrótta- og tómstunda iðkun barna í Húnaþingi vestra er mikil og verðlagning ætti ekki að vera þröskuldur fyrir barnmargar fjölskyldur,“ segir í fundargerðinni.

Á árinu 2015 er gert ráð fyrir talsverðum fjárfestingum og framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins. Stærsta fjárfestingarverkefni ársins 2015 er fyrirhuguð lagning hitaveitu í dreifbýli en stofnaður hefur verið vinnuhópur um þá framkvæmd sem skipa fulltrúi meirihluta, fulltrúi minnihluta, sveitarstjóri og rekstrarstjóri framkvæmda- og umhverfissviðs.

Einnig er fyrirhugað er að endurnýja slökkvibifreið, hanna viðbyggingu við íþróttamiðstöð, sem og hönnun útisvæði leik- og grunnskóla og halda áfram uppsetningu gatnalýsingar í dreifbýli. Í rekstri sveitarfélagsins á árinu 2015 er gert ráð fyrir auknum fjármunum til viðhalds fasteigna og framkvæmdum við fráveitu svo fátt eitt sé nefnt. Þrátt fyrir þessar miklu fjárfestingar er á sama tíma verið að greiða niður eldri lán.

Húnaþing vestra veitir fjölmörgum félagasamtökum og menningarverkefnum styrki á árinu 2015 að fjárhæð alls 17 milljónir króna. Að síðustu skal nefnt að í fjárhagsáætlun ársins 2015 er gert ráð fyrir að veitt verði fjárframlög úr Framkvæmda- og nýsköpunarsjóði Húnaþings vestra sem stofnaður var á síðasta ári.

„Sveitarstjórn fagnar því að upp er að renna tími mikilla framkvæmda í Húnaþingi vestra með framkvæmdum við hitaveitu, viðbyggingu við íþróttahús og fleira sem að framan hefur verið talið. Slíkt er aðeins mögulegt vegna ábyrgrar fjármálastjórnar og hagræðingar í rekstri undanfarin ár sem og niðurgreiðslu lána sem hefur lækkað vaxtabyrði sveitarfélagsins verulega. Um leið og gengið er til brýnna framkvæmda sem munu bæta lífs- og búsetuskilyrði í sveitarfélaginu svo um munar er stefnt að því að halda lántökum í algeru lágmarki jafnframt því að greiða áfram niður skuldir á kjörtímabilinu,“ segir loks í fundargerðinni.

Fleiri fréttir