Fjöldi nýrra og spennandi tækifæra á Blönduósi
Það er mikið um að vera á Blönduósi og vöntun á fólki í hinar ýmsu stöður svo nú er auglýst eftir fólki og tækifærin til staðar fyrir þá sem vilja flytja á staðinn. Húsnæðisskortur er ekki fyrir hendi þar sem fjölmargar eignir eru í boði á hagstæðu verði.
Í auglýsingu frá sveitarfélaginu segir að Blönduós sé helsta þjónustumiðstöð landbúnaðar og ferðamennsku á Norðurlandi vestra, staðsett á einu stórbrotnasta bæjarstæði landsins og umvafinn fallegri náttúru. Blönduós er kraftmikið vaxtarsvæði með öflugri uppbyggingu iðnaðar, íbúðarhúsnæðis og þjónustu við barnafjölskyldur.
Sem dæmi auglýsir leikskólinn Barnabær eftir leikskólakennurum í 100% stöður frá og með 6. ágúst, SAH Afurðir óskar eftir kjötiðnaðarmanni í 100% starf, vefforritara vantar hjá Etix Everywhere Borealis með reynslu af tengingum við JSON vefþjónustur, SQL og time series gagnagrunna. Þá eru fjölmörg störf auglýst á Heilbrigðisstofnunina s.s. eins og yfirhjúkrunarfræðing hjúkrunarsviðs, hjúkrunarfræðing á hjúkrunardeild og ýmis störf í sumarafleysingum.
N1 Píparann vantar pípulagningamann og rafvirki óskast á starfsstöð Tengils á staðnum. Þá leitar Pósturinn að kraftmiklum og ábyrgðarfullum landpósti á Blönduósi.
Fimmtán fasteignir eru auglýstar til sölu á Blönduósi og hægt að gera góð kaup. Þar er m.a. hægt að finna fjögurra herbergja íbúð á rúmar 12 milljónir og jafnvel sex herbergja íbúð í raðhúsi á innan við 30 milljónir.
Sjá nánar HÉR