Fjörið fer að hefjast í körfuboltanum svo um munar

Fjörið fer að hefjast í körfuboltanum svo um munar, því á fimmtudag koma Ísfirðingar í heimsókn í Síkið í Iceland Express deildinni. Þetta er fyrsti heimaleikurinn af fjórum sem Tindastóll spilar í janúar.

Seinni umferð Iceland Express deildarinnar hefst á fimmtudaginn þegar 12 umferðin verður leikin. KFÍ frá Ísafirði kemur í heimsókn í Síkið og eiga okkar menn harma að hefna síðan í fyrstu umferð deildarinnar í október. Þá sigruðu Ísfirðingar með 15 stiga mun 85-70.

Síðan þá hefur talsvert af vatni runnið til sjávar, KFÍ situr á botni deildarinnar með tvo sigra á meðan okkar menn sátu í áttunda sæti eftir fyrri umferðina með fjóra sigra.

KFÍ skipti út bandarískum þjálfara sínum BJ Aldridge í nóvember og við stjórn liðsins tók Shiran Þórisson, sem einnig er formaður körfuknattleiksdeildarinnar. Shiran er gamalreyndur leikmaður með KFÍ og fleiri liðum og þekkir sportið vel.

Lið gestanna er vel mannað, enginn efast um það. Í liðinu eru sterkir erlendir leikmenn og má þar fremstan telja Craig Schoen sem er á sínu þriðja tímabili á Ísafirði. Craig er lágvaxinn en afar snöggur og afbragðs góð skytta. Hann er stigahæstur þeirra Ísfirðinga með 19.6 stig að meðaltali í leik en auk þess sendir hann 5.8 stoðsendingar að meðaltali í hverjum leik. Nebosja Knezevic, Darco Milosevic og Carl Josey eru allt saman hörkuleikmenn sem vert er að hafa góðar gætur á. Þá er gaman að segja frá því að með KFÍ leikur bróðir Borces þjálfara, Pance Ilievski.

KFÍ skipti út tveimur leikmönnum í jólafríinu, þeim Edin Suljic sem var meiddur og Hugh Barnett sem var á skammtímasamningi og fékk í staðinn bretann Richard McNutt, en hann leikur stöðu miðherja. Daði Berg Grétarsson hefur yfirgefið herbúðir Ísfirðinga og gengið til liðs við ÍR en Ari Gylfason, hinn Íslendingurinn sem gekk til liðs við KFÍ fyrir tímabilið, verður áfram hjá þeim. Í viðbót við áður upptalda leikmenn hefur KFÍ nokkra unga og efnilega stráka á bekknum.

Okkar menn slógu ekki slöku við um jólin. Menn tóku vel á því undir stjórn Kára Maríssonar á meðan Borce dvaldi hjá fjölskyldu sinni á Ísafirði og eiga allir að teljast tilbúnir í slaginn. Mikilvægt er að taka upp þráðinn frá því sem frá var horfið fyrir jólafrí og halda áfram að hala inn stig og klifra upp töfluna.

Leikurinn hefst á gamla góða tímanum kl. 19.15. Fyrir leikinn, eða kl. 18.30 verður stuðningsmannasamvera í matsal Árskóla, þar sem boðið verður upp á súpu fyrir þá sem vilja, en hún kostar 500 krónur. Á fundinn mæta þjálfarar Tindastóls og ræða um leikinn, auk þess sem annað verður á dagskránni. Fundurinn er opinn fyrir alla stuðningsmenn, hvort sem þeir eru ársmiðahafar eða ekki. Þetta var prófað fyrir Njarðvíkurleikinn með góðum árangri og því ákveðið að hafa þetta fyrir alla deildarleiki það sem eftir lifir vetrar.

Þess má geta í lokin að næsti heimaleikur Tindastóls verður gegn Skallagrími í bikarkeppninni á sunnudaginn kemur kl. 19.15. Athygli er vakin á því að ársmiðar gilda ekki á bikarleiki.

--

Fleiri fréttir