Flaggskipið Skvetta loksins komið á sinn hinsta stað

Víðimelsbræður sáu um að ferja Skvettu og hér er verið að fara með hana yfir Húseyjarkvíslarbrú til að komast að stærstu eyju Skagafjarðar í byggð Glaumbæjareyjar, þar er Ytri-Húsabakki. MYNDIR AÐSENDAR.
Víðimelsbræður sáu um að ferja Skvettu og hér er verið að fara með hana yfir Húseyjarkvíslarbrú til að komast að stærstu eyju Skagafjarðar í byggð Glaumbæjareyjar, þar er Ytri-Húsabakki. MYNDIR AÐSENDAR.

Laugardaginn 11. nóvember ráku eflaust nokkrir augun í að báturinn Skvetta var á ferðinni í Skagafirði en það var að þessu sinni ekki úti á sjó heldur var verið að ferja hann á sinn hinsta stað, Ytri-Húsabakka. Eigandinn er Þorgrímur Ómar Tavsen, elsti sonur Una Péturssonar og Sylvíu Valgarðsdóttur, en Ómar, eins og hann er kallaður, er fæddur og uppalinn á Hofsósi. Er þessi bátur nýjasta viðbótin við Smábátasafnið á Ytri-Húsabakka og á hann langa sögu með Ómari því hann eignaðist bátinn fyrst árið 2005, gerði upp og réri í nokkur ár eða þangað til að Ómar flutti til Njarðvíkur þar sem hann vann hjá útgerðarfyrirtækinu Grímsnesi ehf. í tæplega áratug. 

Á meðan Ómar var við vinnu í Njarðvík lá báturinn við bryggju á Hofsósi en eftir eitt óveðrið skemmdist hann og ákvað Ómar að sigla bátnum suður til Njarðvíkur í slipp. Í Njarðvík var báturinn lagfærður og leigði Grímsnes ehf. bátinn af Ómari og gerði út frá Bíldudal í nokkur ár. Frá Bíldudal kom hann aftur til Njarðvíkur og var þá prufað að gera bátinn út í ferðaþjónustu sem gekk ekki upp. Þá var honum lagt í Njarðvíkurhöfn þar sem hann varð aftur fyrir tjóni og fór þá aftur í Njarðvíkurslipp en var þar dæmdur það illa farinn að ekki borgaði sig að gera við. Báturinn var þá gefinn á safn á Ísafirði áður en Ómar og konan hans, Dóra Ingibjörg Garðarsdóttir, ákváðu að kaupa Ytri-Húsabakka. Ómar frétti svo að safnið á Ísafirði tæki ekki bátinn, hafði samband við slippinn því hann  hafði áhuga á að eignast Skvettu aftur og svarið var ,,fyrstur kemur fyrstur fær". Það var því sendur bíll daginn eftir að sækja bátinn sem hefur beðið á Sauðárkróki eftir leyfum og góðu tækifæri til flutninga að Ytri-Húsabakka sem og varð raunin á laugardaginn var, 11. nóvember 2023.

Feyki langaði aðeins að forvitnast um kveikjuna að Smábátasafninu.

Hver var fyrsti báturinn sem þú eignaðist og sagan á bak við hann? Fyrsti báturinn sem ég eignaðist var lítill plastbátur sem jafnframt var fyrsti plastbáturinn sem kom í Skagafjörð. Þennan bát á ég enn og er hann eini báturinn sem er ekki súðbyrtur trébátur á Smábátasafninu í dag, og er því ekki í tölunni um fjölda báta safnins. Eftir að ég eignaðist þennan bát tolldi ég illa í barnaskólanum, sérstaklega á veturna á rauðmagatímanum en ég var með nokkur net á rifinu svokallaða vestur af símstöðinni á Hofsósi.

Með hverjum varstu fyrst á sjó? Fyrsta starfið til sjós, full launaður borgandi skatta, var með pabba mínum á Berghildi SI-137 frá Siglufirði árið 1975. Ég hef verið næstum óslitið síðan á sjó, að frátöldum tíma sem ég sótti nám og var í rekstri hópferðabíla árin 2015-2019 eftir slys á sjó í janúar 2014.  Fyrsti alvöru báturinn sem ég eignaðist var með pabba árið 1979 en það var Þerney SK-37, 12 tonna Bátalónsbátur, en ég átti með honum tíu báta sem við gerðum út saman. Áður en ég fór alveg út úr því samstarfi árið 2005 og stofnaði mína eigin útgerð, átti ég stóran hlut í útgerðinni með pabba þangað til hann hætti á sjó.

Hver er fyrsti báturinn sem kom á safnið og hvenær varð þessi hugmynd til? Fyrsti báturinn sem ég kaupi í minni eigin útgerð er Skvetta SK-7, 12 tonna Bátalónsbátur. Ég sótti hana á Hólmavík og sigldi til Sauðárkróks og gerði þar upp. Þegar ég fór á henni til Akureyrar í rafmagnslagfæringu sótti ég fyrsta bátinn, Jóhönnu EA-31, sem ég vildi bjarga og hafa á því safni sem ég hafði þá verið að safna í í langan tíma. Það er því mjög langt síðan ég fór að sanka að mér gripum en þessi var svona í stærri kantinum. Á þessum tíma var Smábátasafnið á YtriHúsabakka ekki einu sinni hugmynd, ég vildi bara varðveita þessar minjar sem í mínum huga eru ómetanlegar. Það var ekki fyrr en við hjónin keyptum Ytri-Húsabakka sem það var mér ofarlega í huga að koma upp smábátasafni og var því Jóhanna EA fyrsti báturinn á því safni.

Eftirfarandi tilvitnun er af síðunni aba.is:
„Báturinn var felldur af skipaskrá 12. desember 1994 með eftirfarandi athugasemd Siglingastofnunar "Verður fargað." Áður en að förgun bátsins kom þá tókst Þorgrími Ómari Tavsen að bjarga þessu handverki afa síns. Þorgrímur Ómar slefaði Jóhönnu EA-31, með bát sem hann átti, frá Akureyri og vestur á Hofsós. Út af Héðinsfirði varð að fara um borð í Jóhönnu og ausa úr henni sjó því að lek var hún eftir að hafa legið í höfn á Akureyri. Út af Hofsósi varð að endurtaka austurinn og á floti komst báturinn í fjöru og var settur á land norðan ár á Hofsósi“.

Hver er uppáhalds báturinn þinn á safninu í dag? Allir fimm bátarnir eftir afa minn sem eru komnir á safnið eru með stærstu tenginguna við sálartetrið, plús plastarinn og auðvitað flaggskipið Skvetta sem er núna loksins komið á safnið.

Hvað eru margir bátar á safninu? Núna þegar Skvetta er komin þá eru komnir 22 bátar á staðinn og stýrishúsið af Maríu Júlíu, fyrsta varðskipi Vestfirðinga. Ég á reyndar eftir að sækja nokkra báta sem vilyrði eru fyrir. Eftir nokkra báta í viðbót þá hefst sú vinna að lagfæra aðeins, gera þá fjarskafallega, með þeirri kunnáttu sem ég lærði af afa mínum, Þorgrími Hermannssyni bátasmiði frá Hofsósi.

Er búið að opna safnið og hefur þú fengið einhverja styrki til uppbyggingar? Nei, ekki formlega en allir sem hafa og vilja koma eru velkomnir á meðan ég er að brasa þetta. Við höfum sótt um styrki hjá Lóunni og SSNV en þóttum ekki vera komin nógu langt í ferlinu og fengum því neitun. En núna erum við með styrktarumsókn í ferli sem vonandi verður tekið vel í svo hægt sé að klára að setja safnið upp á styttri tíma því þetta kostar allt og tekur sinn tíma því mikill hugur er í mér að opna það sem fyrst.

Feykir óskar Ómari og frú velgengni í uppbyggingu Smábátasafnsins á YtriHúsabakka og við fylgjumst grannt með ef nýir gripir bætast við safnið.    

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir