Flettu JólaFeyki á netinu

JólaFeykir á færibandinu færist nær.
JólaFeykir á færibandinu færist nær.

Jólablað Feykis rann af stað á færibandinu í gær og er hluti upplagsins klár og kominn á Póstinn. Það er töluverð vinna við samsetningu blaðsins og lýkur henni ekki fyrr en í dag, þannig að það verða því miður ekki allir komnir með blaðið í hendur fyrir helgi. Beðist er velvirðingar á því.

Jólablaðið er 44 síður líkt og verið hefur síðustu ár og stútfullt af alls konar. Má þar sem dæmi nefna hinn árlega kökuþátt en að þessu sinni eru það kvenfélagskonur í Akrahreppi sem baka. Þá má finna í blaðinu ýmsar frásagnir, einn stuttan jólakrimma, Sigga Kristín verður Feykifín í boði stelpnanna í Villunni og viðtöl eru við Rúnar Þór, sem skaust á Hobbitaslóðir í hjólastól, og Uglu Stefaníu, sem berst fyrir réttindum transfólks víða um heim, svo eitthvað sé nefnt. Þá má ekki gleyma Jóla-Myndagátunni sem mörgum þykir gjörsamlega ómissandi. 

Það má geta þess að lesendur Feykis voru spurðir á Facebook-síðu Feykis hvort þeir ættu í fórum sínum myndir sem gætu gengið sem forsíðumynd á blaðið. Nokkrar ágætar myndir bárust okkur og varð mynd Helgu Rósu Guðjónsdóttur, tekin í Áshúsinu í Glaumbæ, fyrir valinu.

Þeir sem ekki geta beðið eftir að fá blaðið í hendur geta flett JólaFeyki hér á netinu, en hægt er að skoða blaðið með því að smella hér eða smella á forsíðumynd blaðsins hér á Feyki.is. Þeir sem ætla að skoða blaðið á netinu gætu þurft að hafa smá þolinmæði ef netsambandið er ekki upp á það besta; skjalið er stórt og síðurnar gætu þurft nokkur augnablik áður en þær birtast.

Vonandi finna allir eitthvað við sitt hæfi í blaðinu og eiga góðar stundir með JólaFeyki í fanginu – eða á skjánum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir