Flóð og feikna hviður í Skagafirði

Horft eftir heimreiðinni að Jaðri og Húsabakkabæjunum, sem sjást í fjarska til vinstri og austur yfir Eylendið að Hegranesi. Mynd: PF.
Horft eftir heimreiðinni að Jaðri og Húsabakkabæjunum, sem sjást í fjarska til vinstri og austur yfir Eylendið að Hegranesi. Mynd: PF.

Veður er að ganga niður á Norðurlandi vestra en bálhvasst hefur verið í allan dag. Í morgun var veðrið hvað verst og vindhraði mældist yfir 55 metra á sekúndum í verstu hviðunum við Stafá á mótum Sléttuhlíðar og Fljóta. Í hlýindunum og hlákunni hafa ár víða flætt yfir bakka sína og er Eylendi Skagafjarðar komið á kaf.

Eftir stendur mölin ein. Mynd: Þorlákur Sigurbjörnsson.

Eftir stendur mölin ein. Mynd: Þorlákur Sigurbjörnsson.

Svo rammt hvað að við Stafána í mestu vindhviðunum að klæðning fauk af veginum svo eftir stendur mölin ein á smá kafla vegarins. Að sögn Þorláks Sigurbjörnssonar, bónda á Langhúsum, var ansi hvasst um 9 leytið í morgun en stóð ekki lengi yfir.

Eylendið á kafi. Útsýni frá þjóðvegi við Litlu-Gröf á Langholti. Mynd: PF.

Eylendið á kafi. Útsýni frá þjóðvegi við Litlu-Gröf á Langholti. Mynd: PF.

Héraðsvötnin hafa flætt yfir bakka sína og Eylendið á kafi í vatni en að sögn Karels Sigurjónssonar á Húsabakka hefur sjatnað aðeins er Feykir hafði samband upp úr klukkan 16 í dag. „Það rann aðeins upp hérna í morgun en það er komið niður fyrir núna. Það var engin hætta fyrst að ísinn hreyfðist ekki. Ef þau hefðu brotið af sér ísinn veit maður ekkert hvað hefði getað gerst.“

Karel segir að meðan ísinn hangir á geti flætt út um allt en ekkert ísrek. „Ef  og þegar það er komið af stað geta Vötnin stíflast og þá fer vatnið bara til hliðar og þá eira þau engu,“ segir Karel sem taldi enga hættu vera á ferðum þrátt fyrir að bærinn sé umflotinn vatni. Hann segir veginn, heimreiðina, bílbæra en vatn liggur víða yfir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir