Fordæma slæma meðferð á dýrum

Vísir segir frá því að „Neytendasamtökin telja með öllu óeðlilegt að svín séu gelt án deyfingar og kýr látnar vera inni allan sólarhringinn allan ársins hring svo dæmi séu tekin. Jafnframt er ástæða til að minna á að við státum okkur af því að hér á landi sé stundaður landbúnaður sem sé til fyrirmyndar og sem við getum verið stolt af. Þau dæmi sem fram hafa komið í fjölmiðlum benda þó síður en svo til þess."

Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna þar sem Neytendasamtökin fordæma slæma meðferð á dýrum. Samtökin leggja áherslu á að lög um dýravernd eigi að koma í veg fyrir óeðlilega eða illa meðferð dýra. Þau minna á að neytendur gera í auknum mæli kröfur um að við framleiðslu á vörum, ekki síst matvörum, að fara skuli eftir siðrænum reglum.

„Mörgum neytendum er ekki sama og á ekki að vera sama um það hvernig varan sem þeir kaupa er til orðin. Rökum einstakra framleiðenda um að ill meðferð sé til hagsbóta fyrir neytendur er því hafnað," segir á vefnum.

Þá skora Neytendasamtökin á stjórnvöld að fara rækilega yfir þessi mál. Annars vegar með því að skoða hvort herða þurfi gildandi lög um dýravernd og hins vegar að herða eftirlit með því að framleiðendur fari að lögum.

Heimild visir.is

Fleiri fréttir