Forkeppni á LM 2014 lokið

Forkeppninni á Landsmóti hestamanna lauk í gær í úrhellis rigningu og roki. Keppendur hestamannafélaganna á Norðurlandi vestra stóðu sig almennt mjög vel og þess má geta að Þórdís Inga Pálsdóttir frá hestamannafélaginu Stíganda og hesturinn Kjarval frá Blönduósi stóðu efst í unglingaflokknum með 8,714 í einkunn.

Viktoría Eik Elvarsdóttir og Mön frá Lækjamóti enduðu í 9. sæti í forkeppninni í unglingaflokk og komust því áfram í milliriðilinn. Júlía Kristín Pálsdóttir og Drift frá Tjarnarlandi komust einnig áfram í milliriðil í barnaflokki eftir að hafa náð 4. sæti í forkeppninni.

Í A-flokki komst Líney Hjálmarsdóttir og Kunningi frá Varmalæk áfram í milliriðil sem er frábær árangur líkt og segir á vef Stíganda, þar sem ein besta A-flokks keppni í sögu landsmótanna fór fram í gær. Barbara Wenzl og Dalur frá Háleggsstöðum komust einnig áfram í milliriðil í B-flokki.

Í dag hefst milliriðlakeppnin í ungmennaflokki og B-flokki, en í unglingaflokki og A-flokki á morgun, fimmtudaginn 3. júlí. Milliriðlakeppninni í barnaflokki var frestað fram til föstudags vegna veðurs.

Fleiri fréttir