Forsætisráðherra heimsækir Skagafjörð
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra býður til opins fundar í Skagafirði mánudaginn 28. apríl. Ráðherra verður einnig með erindi á kirkjukvöldi á Sauðárkróki sama dag í tilefni Sæluviku. „Það hefur gefið mér mikið síðustu misseri að halda opna fundi með fólki um allt land og ég vil halda því áfram eins og ég get í nýju embætti. Ég hlakka til að koma í Skagafjörðinn og eiga opið og milliliðalaust samtal um það sem brennur helst á heimamönnum,“ segir Kristrún.
Allir eru velkomnir á opna fundinn sem hefst klukkan 17:30 í menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð. Arna Lára Jónsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi verður einnig á fundinum.
„Eftir opna fundinn í Varmahlíð fer ég svo beint á kirkjukvöld í Sauðárkrókskirkju, þar sem mér hefur verið boðið að flytja erindi. Það stefnir allt í frábæran mánudag í Skagafirðinum og ég óska Skagfirðingum góðrar skemmtunar í Sæluvikunni sem framundan er,“ segir Kristrún.
Kirkjukór Sauðárkrókskirkju stendur fyrir viðburðinum sem hefst klukkan 20 og er í tilefni áðurnefndrar Sæluviku, sem sett var á sunnudag.
- - - - -
Hlekkir á báða viðburðina á Facebook:
Opinn fundur með Kristrúnu í Skagafirði
Kirkjukvöld Sauðárkrókskirkju
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.