Framkvæmdir hafnar við stækkun gagnavers Etix Everywhere Borealis á Blönduósi

Gagnaver Etix Everywhere Borealis á Blönduósi. Aðsendar myndir.
Gagnaver Etix Everywhere Borealis á Blönduósi. Aðsendar myndir.

Hafnar eru framkvæmdir við stækkun gagnavers Etix Everywhere Borealis á Blönduósi en um er að ræða byggingu á nýju húsi sem hannað er til að hýsa fjölbreyttar þarfir viðskiptavina gagnaversins á öruggan og umhverfisvænan máta. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að snjallnetslausnir verða nýttar til að tryggja rekstraröryggi og auka nýtni orkuflutnings.

Etix Everywhere Borealis leggur áherslu á rekstur sjálfbærra gagnavera á heimsmælikvarða með lágmarks kolefnisfótspori og er það gert með því að nýta umhverfishita til kælingar og keyra tölvubúnað með endurnýjanlegri orku í gegnum öruggt flutningskerfi raforku á Íslandi.

Stækkun og vöxtur á svæðinu er háður afhendingu á orku og er þessi framkvæmd liður í því að fylgja afhendingaráætlun sem mun eiga sér stað í áföngum. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir frekari stækkun á komandi árum.

„Það er okkar bjargfasta trú að Blönduós sé einstakt svæði til uppbyggingar á gagnaversþjónustu. Samspil nágrennis og landfræðilegra þátta við Blönduvirkjun, ásamt framsýni og stefnu sveitarfélagsins gerir svæðið eitt það besta sem völ er á fyrir slíka uppbyggingu. Ísland er góður staður fyrir aðila sem leita eftir öruggum og umhverfisvænum gagnaverslausnum. Við teljum okkur vera að mæta þessum kröfum með gagnaverinu á Blönduósi,“ segir Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Etix Everywhere Borealis.

Áætlað er að framkvæmdum ljúki í lok þessa árs en það hefur reynst félaginu vel að vinna með öflugum verktökum á svæðinu. Unnið hefur verið með hönnuðum og sérfræðingum frá EcoCooling, Arkís, Verkís og Beka við útfærslu á gagnaverinu.

„Það er mikil ánægja innan okkar raða að geta ráðist í stækkun á gagnaverinu á Blönduósi sem er eina stóra gagnaverið sem rekið er utan suðvestur horns landsins. Staðsetningin er kjörin til uppbyggingar og býður upp á mikil tækifæri í umhverfisvænum og öruggum gagnaverslausnum. Samstarfið við sveitarfélagið hefur verið til fyrirmyndar og stefnum við að frekari vexti á svæðinu á komandi árum,“ segir Björn að lokum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir