Frelsi með ábyrgð
Fall bankanna hefur velt við mörgum steinum. Margt miður fallegt hefur litið dagsins ljós, svo sem sjálftaka eigenda og stjórnenda bankanna. En fall bankanna hefur líka vakið fólk, góðu heilli, til umhugsunar um stjórnmálastefnur, ábyrgð stjórnmálamanna og vinnubrögð. Í ljósi þeirrar staðreyndar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið við völd, hafa andstæðingar okkar reynt að koma þeim kvitti af stað að stefna flokksins sé ekki góð og í raun úr sér gengin.
Það er öðru nær og stenst enga skoðun. Grunnstefið í stefnu Sjálfstæðisflokkurinn er „frelsi með sjálfstæði einstaklingsins að leiðarljósi“. Frelsi og ábyrgð eru systur sem ekki mega skiljast að. Þessi afstaða er grundvöllur stefnu flokksins. Að einstaklingurinn njóti frelsis til að þroska hæfileika sína í samfélagi þar sem allir hafa jöfn tækifæri. Stétt með stétt. Með þessu móti dafna fyrirtæki og einstaklingar, samfélaginu öllu til heilla. Stefna Sjálfstæðisflokksins kveður á um lágmarks ríkisafskipti, en jafnframt að styðja skuli þá sem þess þurfa með. Að samfélagið hjálpi sínum minnstu bræðrum og systrum. Stefna Sjálfstæðisflokksins er yfirburða leiðarvísir um hvernig samfélagið skuli vera. En sé stefnunni ekki framfylgt er voðinn vís.
Stefna flokksins varð ekki „gjaldþrota“ Í grunninn hafa íslensk stjórnmál of lengi haft tilhneigingu til að snúast um völd en ekki hugsjónir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú, einn flokka á Íslandi, hafið gagnrýna sjálfsskoðun á eigin mistökum og andvaraleysi. Ég hef leitt þann hluta endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins sem nefnist „Uppgjöri og lærdómi“. Niðurstaða okkar er sú að benda einfaldlega á hvar Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert mistök og viðurkenna þau. Þeirri vinnu er ekki lokið. Með þessu móti er Sjálfstæðisflokkurinn að taka ábyrgð á þeim þáttum íslensks efnahagshruns sem honum ber. Fer sambærilegt starf fram í öðrum flokkum? Er fólk þar að athuga sinn gang, gagnrýna sína stefnu og stjórnendur fyrir andvaraleysi og mistök? Nei. Þar á að fara fram með sama graut í sömu skál. Þar á að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Stefna Sjálfstæðisflokksins er í raun eini boðlegi valkostur Íslendinga, ef undan er skilin hentistefna Framsóknar, haftastefna VG og Evrópustefna Samfylkingar.
Á Alþingi verður að veljast fólk sem þorir að hafa skoðanir og berst fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Ég vonast til þess að kjósendur Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri Norðvesturkjördæmis treysti mér til þess.
Sigurður Örn Ágústsson,
frá Geitaskarði, A-Hún.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.