Fréttir úr skólastarfi á óvissutímum
„Eins og allir vita hafa takmarkanir verið talsverðar á skólahaldi vegna Covid-19. Reynt hefur verið að halda skólastarfi í eins föstum skorðum og mögulegt er miðað við aðstæður. Aðstæður í skólum eru eðli málsins samkvæmt afar misjafnar. Þannig er skólahald í Grunnskólanum austan Vatna með þeim hætti að allir nemendur geta komið í skólann daglega þar sem hægt hefur verið að aðskilja hópana í samræmi við tillögur sóttvarnarlæknis.“
Þannig hefst pistill á heimasíðu Svf. Skagafjarðar sem birtur var fyrir helgi en skóladagar í Varmahlíðarskóla og Árskóla hafa verið óvanalegir að því leyti að nemendur mæta og/eða fara heim á öðrum tímum en venjulega til þess að koma í veg fyrir blöndun hópa.
„Nemendahópar eru fámennari en vanalega, ekki hefur verið hægt að bjóða upp á list– og verkgreinar og íþróttir/hreyfing hefur verið með óhefðbundnum hætti. Nemendahópar eru í sömu kennslustofunni allan daginn og reynt hefur verið að brjóta upp daginn með fjölbreyttum verkefnum. Eldri nemendur hafa mætt minna í skólann en sinna í staðinn fjarnámi í rafrænu námsumhverfi sem hefur gengið vonum framar í öllum grunnskólunum.
Í leikskólunum Tröllaborg og Birkilundi hefur verið hægt að bjóða öllum börnum upp á vistun daglega. Í leikskólanum Ársölum hefur deildum verið skipt upp í minni hópa og vistunartími barnanna verið skertur vegna tilmæla sóttvarnarlæknis. Starf Tónlistarskóla Skagafjarðar hefur einnig farið að stórum hluta fram með fjarkennslusniði, sem gengið hefur vel. Það er óhætt að segja að stjórnendur og starfsmenn leik-, grunn- og tónlistarskóla í Skagafirði eigi mikið hrós skilið fyrir gríðarlega jákvæðni, gott samstarf, sveigjanleika og lausnamiðun.
Það reynir á fólk í þessum aðstæðum. Það reynir á okkur öll, óháð þeim hlutverkum sem við gegnum. Öll erum við að reyna að gera okkar besta og öll erum við ákveðin í að komast í gegnum þennan tíma með samstöðu og jákvæðni að leiðarljósi. Um það bera þær fjölmörgu kveðjur vitni sem skólarnir hafa fengið frá foreldrum/forsjáraðilum sem kunna vel að meta hvernig starfsfólk skólanna leysir úr því flókna verkefni að sinna börnunum í leik og námi við þessar óvenjulegu aðstæður," segir á skagafjordur.is.
Sjá nánar HÉR