Góður júlí hjá frjálsíþróttafólki Tindastóls

Tindastólskeppendur stóðu sig vel á mótunum. Hér er Andrea Maya Chirikadzi við það að kasta kúlunni. AÐSENDAR MYNDIR.
Tindastólskeppendur stóðu sig vel á mótunum. Hér er Andrea Maya Chirikadzi við það að kasta kúlunni. AÐSENDAR MYNDIR.

Meistaramót Íslands í frjálsum var haldið í júlí. Annars vegar var 15-22 ára mótið haldið helgina 18.-19. júlí í Kaplakrika og Meistaramótið sjálft haldið á Þórsvelli Akureyri helgina 25.-26. júlí. Að venju stóðu keppendur Tindastóls sig vel.

Meistaramót Íslands 15-22 ára í Kaplakrika
Meistaramót Íslands 15-22 ára fór fram í Kaplakrika helgina 18.-19. júlí. 206 keppendur voru skráðir til leiks frá 19 félögum auk þess sem nokkrir Færeyingar kepptu sem gestir á mótinu. Á heimasíðu ÍR kemur fram að aðstæður hafi verið erfiðar á vellinum fyrri daginn vegna mikils roks og því flestir árangrar í spretthlaupum og þrístökki ekki skráðir í metabækur vegna of mikils meðvindar. Vindurinn gerði sumum keppendum mjög erfitt fyrir sér í lagi í hringhlaupum en þó skiluðu fjölmargir keppendur góðum árangri og bætingum. Seinni dagurinn var mun skaplegri og sólin skein hluta af deginum.

Keppendur Tindastóls voru þrír, þau Andrea Maya Chirikadzi, Rúnar Ingi Stefánsson og Stefanía Hermannsdóttir. Uppskáru þau 4 silfur og 1 brons.

Andrea vann til þrennra silfurverðlauna. Hún kastaði 11,84 metra í kúluvarpi sem er jafnframt besta kast hennar á þessu tímabili. Í kringlu náði hún að bæta sinn besta árangur með því að kasta 26,19 metra  og sleggjunni kastaði hún 31,02 metra sem er aftur hennar persónulega besta kast í sleggju.

Rúnar vann til silfurverðlauna í kúluvarpi með kasti upp á 12,07 m og er það hans persónulegi besti árangur.

Stefanía vann brons í spjótkasti er hún kastaði spjótinu 36,32 metra sem er hennar persónulegi besti árangur og jafnframt nýtt héraðsmet í spjótkasti.

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum á Þórsvelli, Akureyri
Helgina 25.-26. júlí fór Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fram á Þórsvelli á Akureyri. Keppendur á mótinu voru 176 talsins frá 14 frjálsíþróttadeildum. Keppt var í einstaklingsgreinum og boðhlaupum, alls 37 greinum á tveimur dögum. ÍR og FH sóttu flestu verðlaunin, 42 og 26. Tindastóll átti sex keppendur og vann til tveggja bronsverðalauna á mótinu.

Sveinbjörn Óli Svavarsson hljóp fyrri daginn 100 m undanriðilinn á þriðja besta tímanum og komst því áfram í úrslit þar sem hann hljóp á 11,14 sek en meðvindur var +2,2 náði þessi tími honum 5. sæti. Seinni daginn hljóp Sveinbjörn 200 m á sínum besta tíma 22,67 sek. en meðvindur var of mikill +2.8. Dugði þessi tími honum til að komast í úrslitahlaupið.

Ragna Vigdís Vésteinsdóttir hljóp á fínum tíma 100 m og komst í topp 8 í spjótkasti og kringlu. Rúnar Ingi Stefánsson lenti í 5. sæti í kúluvarpi með kasti upp á 11,73 m. Andrea Maya Chirikadzi kastaði spjótinu 26,19 m og lenti í 6. sæti. Var þetta hennar persónulega besta kast. Seinni daginn hélt Andrea áfram að bæta sig og kastaði kringlunni 30,72 m sem aftur er hennar persónulega besta kast

Stefanía Hermannsdóttir setti nýtt héraðsmet í 600 gr spjóti 16-17 ára og lenti í 3. sæti með kast upp á 33,32 m. Stefanía kastaði kringlu á sunnudaginn og bætti sitt tímabilskast þegar hún kastaði 27,49 m. Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir keppti í hástökki á sunnudeginum og stökk 1,65 m og lenti hún í 3. sæti.

Feykir óskar þeim öllum til hamingju með góðan árangur og vonar að þau haldi áfram á þessari braut.

/SHV

Tindastóll á palli. Tindastóll á palli.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir