Fuglaskoðarinn - Stefán Sturla Sigurjónsson

Brottflutti Skagfirðingurinn, Stefán Sturla Sigurjónsson, sendi frá sér spennubókina Fuglaskoðarinn fyrir þessi jól. Bókin fjallar um dularfullan dauða ungs manns sem er hugfanginn af fuglum. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að ekki er allt með felldu í fortíð piltsins. Rannsóknarlögreglukonunnar Lísu og hjálparmanna hennar bíður flókið púsluspil og þau fletta ofan af vafasömum flötum samfélagsins suður með sjó.

Stefán Sturla Sigurjónsson er fæddur í Reykjavík 4. júní árið 1959. Hann stundaði nám í húsasmíði við Fjölbrautarskólann í Breiðholti, búfræði við Búnaðarháskólann á Hvanneyri og leikari frá leiklistarskóla Íslands.

Á unglingsárum Stefáns flutti fjölskyldan á Krókinn. Móðir Stefáns er Sólveig Stefánsdóttir, gjarnan kennd við Miðsitju og faðir Sigurjón Valdimarsson en hann var einn af stofnendum Eiðfaxa og fyrsti ritstjóri þess. Hann var einnig einn stofnenda gæðingadómarafélagsins og fyrsti formaður þess.

Fuglaskoðarinn hefur fengið góða dóma gagnrýnenda.

 Eftir Stefán Sturlu hafa komið út tvær barnabækur, Trjálfur og Mimmli (2000) og Alína, tönnin og töframátturinn (2007). Hann hefur einnig skrifað leikrit, söngleiki og gerði borðspilið Spurningaspilið Ísland (2002). Hann hefur verið þáttastjórnandi bæði fyrir útvarp og sjónvarp.

Stefán hefur ýmist leikið eða leikstýrt við leikhús landsins, í kvikmyndum og sjónvarpi en með Leikfélagi Sauðárkróks lék hann áður en hann hóf nám í leiklist og að sjálfsögðu hefur hann komið nokkrum sinnum til heim og unnið með leikfélaginu.

Stefán býr og starfar í Vasa í Finnlandi síðan 2006. Þar stóð hann að íslenskri listahátíð árið 2009 þar sem flutt voru íslensk verk í leikhúsum borgarinnar, LA kom með gestasýningu, sinfóníuhljómsveit borgarinnar flutti íslensk verk í samvinnu við Caput undir stjórn Guðna Franzsonar, myndlistasýningar voru í söfnum borgarinnar, rithöfundar kynntu verk sín og íslenskar kvikmyndir sýndar í kvikmyndahúsunum. Í Vasa hefur Stefán starfað sem leikari og leikstjóri, m.a. hefur hann leikstýrt Blá hnettinum (Borgarleikhúsið í Vasa) eftir Andra Snæ Magnason og Græna landinu (Wasa Teater sem er sænskumælandi leikhús borgarinnar) eftir Ólaf Hauk Símonarson.

Stefán segir að hugmyndin að Fuglaskoðaranum hafi kviknað fyrir um fimm árum. En efnið í margar persónur og saga þeirra hefur verið í þróun í meira en tíu ár.

Var eitthvað sem kom þér á óvart við gerð bókarinnar?

„Vegna mikils undirbúnings og að ég hafði góðan tíma til að sitja við skriftir kom fátt mér á óvart við skrif þessarar bókar, kannski þó helst hvað það var gaman að skrifa spennusögu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir