Fundað með ráðherrum og þingmönnum um aðkomu að sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu

Frá fundi með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Mynd:sameining.huni.is
Frá fundi með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Mynd:sameining.huni.is

Oddvitar og sveitarstjórar sveitarfélaganna í Austur- Húnavatnssýslu áttu, um miðjan síðasta mánuð, fundi með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Einnig var fundað með fjórum þingmönnum Norðvesturkjördæmis þeim Haraldi Benediktssyni, Bergþóri Ólasyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur og Sigurði Páli Jónssyni.

Tilgangur fundanna var að ræða aðkomu Alþingis og ríkisstjórnar að sameiningu sveitarfélaga í Húnavatnssýslu og helstu hagsmunum svæðisins í atvinnu- byggða- og samgöngumálum. Í minnisblaði frá fundinum segir að ráðherrar hafi tekið vel á móti hópnum, sýnt verkefninu góðan skilning og lofað að styðja við sjónarmið Húnvetninga eftir bestu getu. Í forgangi var að ræða verkefni sem heyra undir verksvið hvers ráðherra.

Meðal þess sem rætt var á fundunum var áhersla á stuðning við uppbyggingu ferðaþjónustu í Austur- Húnavatnssýslu og styrkingu raforkuflutningskerfis jafnframt því sem lagt var til að sett verði af stað sérstakt verkefni til atvinnu- og byggðaþróunar á svæðinu. Rætt var um mikilvægi þess að styrkja starfsumhverfi bænda í ljósi þess að Austur-Húnavatnssýsla er rótgróið matvælaframleiðslusvæði sem á í erfiðri varnarbaráttu. Einnig lýstu fulltrúar sveitarfélaganna vonbrigðum sínum með að aðeins sé gert ráð fyrir framlögum til hönnunar Skagastrandarvegar á þessu ári en engin framlög séu til framkvæmda á næsta ári skv. fyrirliggjandi áætlun. Einnig lýstu sveitarfélögin kröfum sínum til aukinna framlaga til uppbyggingar héraðs- og tengivega og ósk um aukna aðkomu að ákvörðunum og forgangsröðun.

Á fundi með þingmönnum kjördæmisins kom fram að fyrirliggjandi er nefndarálit meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar þar sem lagt er til að tilteknum framkvæmdum verði flýtt í samræmi við fjárfestingarátak 2020. Þar er lagt til að framkvæmdum við Skagastrandarveg um Laxá verði flýtt um tvö ár. Á þessu ári er fyrirliggjandi 100 mkr. fjárheimild til hönnunar og gerð útboðsgagna. Verði fjárfestingarátakið samþykkt á Alþingi í haust er gert ráð fyrir framlagi að fjárhæð 1.000 mkr. á árinu 2021 og 600 mkr. á árinu 2022.

Þingmenn hvöttu Húnvetninga til að setja saman tillögur að tveimur tilraunaverkefnum, annars vegar um forgangsröðun framkvæmda við héraðs- og tengivegi og hins vegar við atvinnu- og byggðaþróun. Lýstu þeir áhuga á að styðja við slík verkefni.

Ýtarlegri fréttir af fundunum má nálgast á vefnum Sameining Austur-Húnavatnssýslu, https://sameining.huni.is/

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir