Fyllt upp í 4,5 km af skurðum á Gottorp
Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, hefur sótt um framkvæmdaleyfi fyrir endurheimt votlendis á jörðinni Gottorp í Húnaþingi. Á svæðinu sem um ræðir, eru skurðir sem áætlað er að séu alls 4,5 km að lengd.
Í fundargerð skipulags- og umhverfisráðs Húnaþings vestra frá því í síðustu viku kemur fram að fyrirhugað sé að fylla upp í hluta þessara skurða að fullu með uppgreftri, sem að þeim liggur, en í öðrum skurðum er áætlað að gera litlar „stíflur“ með reglulegu millibili. Þjappað verður ofan í skurðstæði svo fyllingar skolist ekki til og hliðargróður skurða og ofan af ruðningum notað til að þekja yfir rastasvæði. Stærð framkvæmdasvæðis er um 33 ha.
Votlendissjóður endurheimti votlendi á fjórum jörðum árið 2019 og segir á heimasíðu sjóðsins það vera í heildina 72 hektarar. Er þar tekið dæmi um að það nemi stöðvun útblásturs 1.440 tonnum á þessu ári og það margfaldað í átta ár þá alls 11.520 tonn af CO2 ígildum sem hætta að fara út í andrúmsloftið. „Það er sambærilegt því að við myndum taka 720 bíla úr umferð í ár. Það magn á ári samsvarar svo 5760 fólksbílum í 8 ár. Það munar sannarlega um það. Framundan eru mjög spennandi tímar hjá Votlendissjóð,“ segir á votlendi.is.
Votlendissjóður hélt ársfund sinn fyrir árið 2019 11. júní sl. þar sem lögð var fram árskýrsla sjóðsins sem má lesa HÉR.
