Fyrri áfangi Sundlauglaugar Sauðárkróks opnaður - Myndband

Þær virtust ánægðar með nýbreytingarnar á sundlauginni þessar hressu konur er viðstaddar voru opnun laugarinnar í gær. Mynd: PF.
Þær virtust ánægðar með nýbreytingarnar á sundlauginni þessar hressu konur er viðstaddar voru opnun laugarinnar í gær. Mynd: PF.

Komið var að langþráðri stund þegar Sundlaug Sauðárkróks var formlega opnuð eftir fyrri áfanga gagngerra endurbóta sem staðið hafa yfir tvö síðustu ár. Miklar breytingar hafa verið gerðar á húsnæðinu þar sem starfsaðstæður og aðgengi eru öll til fyrirmyndar. Sundlaugin er ein af fáum sem státar af sér klefa fyrir þá sem ekki geta nýtt sér almenna karla- eða kvennaklefa en mikil þörf hefur skapast eftir þannig aðstöðu síðustu ár í sundlaugum landsins.

Við athöfnina bauð Sigfús Ingi Sigfússon gesti velkomna og upplýsti að byggingarefnd sundlaugarinnar tók til starfa í janúar 2016 en umræðan um hvað skuli gert varðandi sundlaugina hefur staðið yfir í langan tíma. Fullnaðarhönnun er komin að öðrum áfanga byggingarinnar og stefnt á að hefja framkvæmdir í haust.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggingarnefndar, rakti framkvæmdasögu laugarinnar,  og Knútur Aadnegard, verktaki og eigandi K-Tak, ávarpaði gesti og las m.a. upp bréf sem fannst í innréttingu og innihélt sviðsmynd næsta nágrennis sundlaugarinnar 11. maí 1971 klukkan 9:29. Áður en Knútur skilaði Stefáni Vagni lyklum sundlaugarinnar kallaði hann fulltrúa sunddeildar Tindastóls til sín og afhenti peningaupphæð sem smá sárabót fyrir það rask sem sundiðkendur hafa þurft að þola.

Guðný Axelsdóttir, formaður félags- og tómstundarnefndar, ávarpaði gesti og minnti hún á að Sveitarfélagið Skagafjörður reki fjórar sundlaugar í héraðinu sem teljast mætti gott í ekki stærra sveitarfélagi.

Að endingu var afhjúpað í anddyri sundlaugarinnar minnismerki um Guðjón Ingimundarson, einn af aðalhvatamönnum um byggingu Sundlaugar Sauðárkróks en hann sá um rekstur hennar frá 1957 til ársins 1986 þá búinn að kenna sund í Skagafirði samfellt í 47 ár.

Hönnun beggja áfanga laugarinnar var í höndum Jóns Þórs Þorvaldssonar, Úti Inni arkitektar, og óhætt að fullyrða að vel hafi tekist til með verkið.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá og heyra hvernig til tókst á opnunardeginum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir