Fyrsta umferð í 2. deild kvenna í körfu var á Hvammstanga um helgina

Stólakonur fyrir fyrsta leikinn á móti Stjörnunni
Stólakonur fyrir fyrsta leikinn á móti Stjörnunni

Það var fjör í iþróttahúsinu á Hvammstanga á laugardaginn þegar fyrsta örmót 2. deildarinnar í körfubolta kvenna var haldið. Mikil spenna var í loftinu því þarna voru komin saman sex lið til að spila  og mátti sjá bæði nýja og gamla iðkendur etja kappi á parketinu með bros á vör því leikgleðin var í hámarki hjá öllum sem þarna voru mætt í hús til að spila.

Í vetur skráðu sig þrettán lið frá ellefu félögum til leiks sem er metþátttaka, að sögn KKI.is. þá greindu þeir einnig frá því að þetta er í fjórða skipti sem keppt er í 2. deildinni og það má finna lið frá öllum landshornum að þessu sinni. Þessum þrettán liðum var skipt upp í tvo riðla og keppt var í þeim báðum á laugardeginum 2. nóv. Lið Tindastóls lenti í riðli með Stjörnunni úr Garðabæ, sem skráði tvö lið til leiks, Kormáki frá Hvammstanga, Hetti frá Egilsstöðum og svo Snæfelli frá Stykkishólmi. Öll liðin spiluðu tvo leiki og fóru þeir sem hér segir...

Höttur -  22:59  - Stjarnan B2

Stjarnan B1 - 43:18 - Tindastóll B

Höttur - 13:44 - Snæfell B

Stjarnan B2 - 34:22 - Kormákur

Snæfell B - 33:50 - Stjarnan B1

Kormákur - 40:14 - Tindastóll B

Stólakonur spiluðu eins og sést við bæði Stjörnuna og Kormák og ekki skemmdi fyrir að í leiknum á móti Stjörnunni spiluðu þær á móti Effu, Efemíu Rún Sigurbjörnsdóttur, sem var alin upp í körfuboltabúðum Tindastóls og reyndist erfið við gamla liðið sitt. Stólakonur náðu mjög góðri byrjun í fyrsta leikhluta og unnu hann en svo var eins og skortur á þreki hafi farið með þær og yfirtóku Stjörnustelpur leikinn. Stólakonur sýndu samt flotta takta inn á milli en eitthvað reyndist erfitt að hitta í hringinn góða. Í seinni leiknum var nágrannaslagur þar sem Stólakonur mættu ungu og spræku liði Kormáks. Lið Kormáks var með yfirhöndina allan leikinn sem bætti á forskotið sitt hægt og rólega þegar leið á og þrátt fyrir ágætar tilraunir hjá Stólakonum þá reyndist oft erfitt að koma boltanum ofan í körfuna. Stólakonur fóru því af velli með örlítið brotið hjarta en voru fljótar að lyfta sér upp og mega vera stoltar af frammistöðu sinni í þessari fyrstu keppni ársins.

Lið Kormákar á Hvammstanga - flottur og sterkur hópur

Mjög efnilegt og sterkt lið Kormáks frá Hvammstanga. Mynd tekin fyrir leikinn á móti Tindastól. 

Þá er einnig gaman að segja frá því að systurnar Dagbjört og Sólborg Hermannsdætur hittust á þessu móti en Sólborg spilar ásamt Effu með Stjörnunni. Sólborg er eins og Effa uppalinn í körfuboltabúðum Tindastóls en hún var hinsvegar skráð í B2 lið Stjörnunnar sem spilaði ekki á móti Tindastól að þessu sinni en gerir það vonandi á næsta móti sem verður samkvæmt KKI.is 8.- 9. febrúar.

Sólborg Björg Hermundsdóttir, Dagjört Rós Hermundsdóttir og Efemía Rún Sigurbjörnsdóttir

Hér eru þær Sólborg Björg, Dagbjört Rós og Efemía Rún. Mynd tekin á mótinu um helgina. 

Staðan í riðlinum eftir fyrsta mótið er....

1.

Stjarnan b2

2/0

4

                                                                                                                   

2.

Stjarnan b1

2/0

4

                                                                                                                   

3.

Snæfell b

1/1

2

                                                                                                                   

4.

Kormákur

1/1

2

                                                                                                                   

5.

Tindastóll b

0/2

0

                                                                                                                   

6.

Höttur

0/2

0

                                                                                                                   

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir