Fyrsti fundur sameiningarnefndar á nýju ári

Sameiningarnefnd Austur-Húnavatnssýslu kom saman til fundar þann 25. febrúar síðastliðinn ásamt tveimur fulltrúum frá RR ráðgjöf. Í fundargerð nefndarinnar kemur meðal annars fram að þar hafi verið lagt fram minnisblað frá RR ráðgjöf sem átt hefur fundi með sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaga að sameiningarnefndinni.  

Í minnisblaði RR ráðgjafar kemur fram að ákveðnir fyrirvarar hefðu verið settir fram í tengslum við töku ákvörðunar um formlegar viðræður og að þar séu ýmis atriði sem þurfi að rýna frekar áður en lengra sé haldið. 

Sveitarstjórn Skagastrandar óskaði eftir að unnið yrði að því að finna samhljóm og sameiginlega megin hagsmuni á svæðinu. Einnig kom fram að sveitarstjórn Húnavatnshrepps óskaði eftir því að  mörkuð verði stefna varðandi framtíðarverkefni á Húnavöllum ef skólahald leggst þar af.  

Þá vakti Halldór G. Ólafsson, oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar, máls á því að mikilvægt væri að komast að niðurstöðu um meðferð þeirra fjármuna sem Sveitarfélagið Skagaströnd á og var í kjölfarið rætt um möguleika á því að tryggja að fjármunirnir yrðu nýttir til uppbyggingar á innviðum á Skagaströnd sem yrðu þó svæðinu öllu til góða. 

Umræður sköpuðust um helstu áhersluatriði og hagsmuni sem sveitarfélögin telja mikilvægt að verði í forgrunni í vinnu nefndarinnar og áhersla verði lögð á í samskiptum við ríki og Alþingi. Ráðgjöfum var falið að vinna frumdrög að hagsmunagreiningu. 

Þá var rætt um aðild annarra sveitarfélaga að sameiningarviðræðunum. Samþykkt var samhljóða að bjóða Húnaþingi vestra, Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi formlega að viðræðunum og var Jóni Gíslasyni, formanni nefndarinnar, og ráðgjöfum RR ráðgjafar falið að senda sveitarfélögunum erindi þess efnis.

Fleiri fréttir